Grein í Bændablaðinu 7.júlí

Þórhildur Bjartmarz

Dagur íslenska fjárhundsins – Málþing haldið til að heiðra minningu Mark Watson sem barðist fyrir verndun íslenska hundsins

Saga íslenska fjárhundakynsins er sveipuð ævintýraljóma. Á árunum 1937 og 1938 ferðaðist breski aðalsmaðurinn Mark Watson um Ísland. Á ferðalaginu sá hanníslenska fjárhunda og heillaðist af kyninu. Rúmlega áratug síðar, þegar Mark Watson kom aftur til landsins, uppgötvaði hann að íslensku hundarnir voru sjaldséðir. Þann 18. júlí verða 110 ár liðin frá fæðingu Íslandsvinarins Mark Watson. Til að heiðra minningu hans verður haldið málþing í Þjóðminjasafni Íslands og Dagur íslenska fjárhundsins verður haldinn í fyrsta sinn.

Íslandsvinurinn Mark Watson gaf fé til að endurreisa Glaumbæ í Skagafirði, hann gaf Íslendingum myndir Collingwoods og dýraspítlala svo dæmi sé tekið af öllu því sem hann gerði fyrir land og þjóð. Og það var þessi maður sem ákvað að íslenska hundakyninu yrði að bjarga. Á árunum 1955–1960 lét hann safna saman nokkrum íslenskum hundum í þeim tilgangi að flytja þá úr landi. Meðal annarra sem komu við sögu var Páll A. Pálsson, fv. yfirdýralæknir, og þeir bændur sem létu hundana sína af hendi til hreinræktunar svo kyninu yrði forðað frá útrýmingu. Ekki fóru þó allir hundar af landi brott sem safnað var saman á Keldum. Tvær tíkur urðu eftir og eignuðust mörg afkvæmi og teljast formæður flestra þeirra hunda sem við þekkjum í dag. Síðar tóku nokkrir aðilar sig saman síðar um að varðveita og hreinrækta íslenska fjárhundinn. Skipulögð ræktun á kyninu hófst um 1965 þegar þau hjónin á Ólafsvöllum á Skeiðum, Sigríður Pétursdóttur og Kjartan Georgsson, fengu íslenska hunda til ræktunar að áeggjan Páls A. Pálssonar yfirdýralæknis.

Hundaræktarfélag Íslands stofnað á Hótel Sögu árið 1969

Sigríður var í forystu áhugamanna sem stofnuðu Hundaræktarfélag Íslands árið 1969. Mark Watson sem hvatti til stofnunar félagsins var gerður heiðursstofnfélagi á fundinum sem haldinn var á Hótel Sögu. Gunnlaugur Skúlason dýralæknir var fyrsti formaður félagsins. Á fyrstu árunum var starfsemi félagsins eingöngu tengd málefnum íslenska fjárhundsins. Deild íslenska fjárhundsins (DÍF) var stofnuð innan HRFÍ árið 1979. Deildin ber ábyrgð á útliti og heilbrigði hundsins ásamt ræktunarmarkmiði tegundarinnar og á að vera í forystu með allt það sem tengist íslenska fjárhundakyninu. Guðrún R. Guðjohnsen var fyrsti formað- ur deildarinnar og síðar formaður HRFÍ í mörg ár. Guðrún hefur lagt mikið af mörkum við að viðhalda stofninum og fékk meðal annars sérstaka undanþágu frá lögum árið 1988 til að flytja inn íslenska fjárhunda frá Danmörku til ræktunar. Árið 1996 var Guðrún R. Guðjohnsen aðalhvatamaður að stofnun ISIC sem er alþjóðlegt samstarf um verndun íslenska hundakynsins.

Lifandi táknmynd þeirra hunda sem komu með landnámsmönnum

Íslenski fjárhundurinn telst ekki lengur í útrýmingarhættu. En Íslendingar þurfa að vera á varðbergi og standa undir því hlutverki að bera ábyrgð á ræktun kynsins og heilbrigði. Íslenskir fjárhundar eru lifandi táknmynd þeirra hunda sem landnámsmenn fluttu með sér til landsins. Hefði Mark Watson ekki gripið til aðgerða á svo áhrifaríkan hátt sem hann gerði er alls óvíst að við ættum íslenska fjárhundakynið. Hefði þessi breski Íslandsvinur ekki heillast af kyninu á sínum tíma ættum við líklega einungis myndir af íslenska hundinum og segðum sögur af hundinum sem við Íslendingar áttum öldum saman, hundinum sem lifði hér með forfeðrum okkar, en við höfðum ekki vit á að varðveita á tuttugustu öldinni.

  1. júlí verður Dagur íslenska fjárhundsins

Til að heiðra minningu Mark Watson hefur Deild íslenska fjárhundsins ákveðið að halda Dag íslenska fjárhundsins á fæðingardegi hans, 18. júlí. Dagurinn verður framvegis notaður til þess að vekja athygli á eina þjóðarhundi okkar Íslendinga, tilvist hans og sögu. Þann 18. júlí ár hvert munu vinir íslenska fjárhundsins fagna deginum og minnast þeirra og heiðra sem með ótrúlegum dugnaði og árræðni björguðu íslenska fjárhundakyninu frá því að verða aldauða.

Þórhildur Bjartmarz, f.v. formaður HRFÍ