Konni frá Lindarbakka

Þórhildur Bjartmarz:

Það er gaman að hitta fólk sem man tímann þegar leitað var að íslenskum hundum fyrir Mark Watson. Fyrir stuttu hitti ég konu, fjölskyldan hennar átti Konna frá Lindarbakka og það var yndislegt að heyra  hvernig hún talar um hundinn með hlýju og virðingu. Ekki nóg með það hún saumaði stóra fallega mynd af Konna sem prýðir heimilið hennar.

Einn af hundunum sem fóru til Kaliforníu 1956 til Mark Watson var Konni frá Lindarbakka. Svanbjört Þorleifsdóttir nú búsett í Kópavogi var þá 20 ára og man vel eftir haustinu 1956 þegar Vilhjálmur Einarsson og Mark Watson komu við á Lindarbakka til að skoða Konna:

Konni var fæddur á Hlíðarenda í Breiðdal og var 3. eða 4. vetra þetta haust. Konni var alltaf brosandi og glaður, hann var viljugur og góður smalahundur. Konni var greindur hundur og fljótur að skilja hvort sem talað var við hann eða annan.

Watson leist vel á Konna og fjölskyldan sem var að flytja úr sveitinni í þéttbýlið var fegin að hann vildi eignast hundinn því þá fengi Konni að lifa.

Ég man vel þegar Vilhjálmur kom síðar við annan mann til að sækja Konna. Konni sem var glaður þegar gestir komu stökk sjálfviljugur í bílinn þar sem fyrir var Vaskur frá Þorvalsstöðum.

Mörgum árum síðar hitti bróðir minn Watson í Reykjavík og sagði hann að Konni væri enn á lífi í Englandi og hafði eignast mörg afkvæmi.

Watson sendi fjölskyldunni bókina sína um íslensku hundana og mynd af Konna sem Svanbjört á.

Það var mikil eftirsjá í þessum glaða og fallega hundi og þegar Svanbjört fékk myndina frá Watson ákvað hún að sauma sér mynd í lit eftir ljósmyndinni. Þetta var á árunum fyrir 1960 og ekki mikið litaúrval í garni og því eru sumir litirnir ekki alveg réttir  í myndinni. En það er með ólíkindum að mínu mati hvernig Svanbjört hefur náð að kalla fram þennan einstaklega fallega brosleita svip á Konna frá Lindarbakka.

Konni of Lindarbakki 2

 

 

20160531_105404

 

20160531_114316