Geta ekki hugsað sér lífið án Tinna

dv.is:

Nokkrir nágrannar berjast fyrir því að bera okkur fjölskylduna út

„Það hefur aldrei verið kvartað undan hávaða eða óþrifnaði.“ Þetta segir Hilmar Birgir Ólafsson sem stendur frammi fyrir því að hundinum hans verður mögulega úthýst af heimili fjölskyldunnar, í Stakkholti 2-4 í Reykjavík, í næstu viku.

Hilmar og unnusta hans Herdís keyptu sér nýlega íbúð í Stakkholti en saman eiga þau hundinn Tinna. Parið stóð í þeirri trú að þau þyrftu ekki sérstakt leyfi fyrir hundinn þar sem ekki er inngengt í íbúðina frá stigagangi blokkarinnar. Nokkrir nágrannar vilja vilja losna við hundana.

Íbúakosning næsta miðvikudag

Hilmar segir að þau hafi ætíð passað upp á að sem minnst fari fyrir hundinum. Nú er svo komið að nokkrir nágrannar þeirra í blokkinni eru svo ósáttir við hundahaldið að þeir hafa krafist þess að hundurinn fari. Næsta miðvikudag fer fram íbúakosning á húsfundi í blokkinni sem telur yfir 100 íbúðir.

Til að vekja athygli á málinu setti Hilmar upp heimasíðu í þeim tilgangi að kynna málið fyrir öðrum íbúum í blokkinni. Síðan hefur vakið nokkra athygli en að auki eru sýndar myndir og sagðar sögur af hundunum Aríu og Effý. Framtíð þeirra í húsinu veltur sömuleiðis á niðurstöðum íbúakosningarinnar. Hilmar sagði einnig um málið á Facebook:

„Þrátt fyrir að Tinni hafi aldrei komið inn í sameign hússins sem við búum í hafa nokkrir nágrannar okkar ákveðið að berjast með kjafti og klóm fyrir því að bera okkur fjölskylduna út.“

Hilmar segir að þau ætli að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að fá að búa áfram með Tinna í Stakkholti. Ef niðurstaðan verður sú að Tinni þurfi að fara þá ætla þau að selja íbúðina þar sem þau geta ekki hugsað sér lífið án hans.

Erfið kosning

„Með síðunni erum við að biðla til nágranna okkar að hjálpa okkur með því að kjósa á fundinum. Okkur langar að sýna þeim að þetta eru bara litlir og góðir hundar og að þetta skiptir okkur öllu máli.“

Hilmar viðurkennir að það hafi að sjálfsögðu verið mistök hafa ekki kynnt sér lögin betur áður en þau fluttu með Tinna í fjölbýlishús. Kosningin verður erfið en meira en helmingur íbúðaeigenda þarf að mæta á fundinn eða að veita þeim umboð í tilteknu máli. Að auki þurfa tveir þriðju hluti íbúðareiganda að segja já. Það að sitja hjá jafngildir nei-i.

„Það er fullt af fólki sem er með okkur í liði. Við ætlum að nota næstu daga í að kynna málið fyrir íbúum hússins og ég vonast svo sannarlega til að flestir taki jákvætt í það.“

http://www.dv.is/frettir/2016/5/26/hilmar-aetlar-ad-selja-ibudina-ef-hundurinn-tharf-ad-fara/