Málþing um velferð gæludýra 

Jórunn Sörensen mætti á málþingið f.h. Hundalífspóstsins:

Matvælastofnun hélt málþing um nýja reglugerð um velferð gæludýra 3. mars 2016 í Sjávarútvegshúsinu. Reglugerðin tók gildi 21. janúar 2016. Málþingið var öllum opið og aðgangur ókeypis.

Auglýst dagskrá var sem hér segir:

  • Ný reglugerð um meðferð gæludýra. Halldór Runólfsson fundarstjóri
  • Af hverju nýjar reglur og hver fylgist með? Sigurborg Daðadóttir yfirdýralæknir
  • Meðferð, umhirða og aðbúnaður gæludýra. Þóra J. Jónasdóttir dýralæknir gæludýra og dýravelferðar hjá Matvælastofnun
  • Hlé
  • Tilkynningarskylt dýrahald – hvað er það? Þóra J. Jónasdóttir
  • Umræður
  • Samantekt og lokaorð. Halldór Runólfsson fundarstjóri

Málþingið hófst á því að fundarstjóri bauð gesti velkomna og sagði að hann tæki að sér fleiri hlutverk en ætlað var í fyrstu. Ráðherra málaflokksins hefði ætlað að flytja ávarp en það brást. Einnig hefði yfirdýralæknir lagst í flensu svo hann myndi einnig ræða þann lið.

Í ávarpi sínu og lið yfirdýralæknis fór fundarstjóri yfir tildrögin að því að ný reglugerð var sett. Nefnd var skipuð og í henni m.a. fulltrúar ýmissa félaga er láta sig varða velferð ákveðinna tegunda gæludýra. Efnisatriðum reglugerðarinnar var deilt niður á vinnuhópa. Nefndin kynnti sér samsvarandi reglugerðir á Norðurlöndunum og Evrópusambandinu. Að lokum leitaði nefndin umsagna en ekki kom fram hjá hverjum.

Meðferð, umhirða og aðbúnaður gæludýra

Þá var komið að aðalfyrirlesara málþingsins, Þóru J. Jónasdóttur dýralækni, sem kynnti sjálfa reglugerðina. Í inngangsorðum sínum sagði hún nefndina hafa tekið frumkvæði í ýmsum málum til hagsbóta fyrir gæludýrin. Hún fór síðan í gegnum reglugerðina og lagði áherslu á ýmis nýmæli sem þar eru. Mun ég stikla á helstu atriðum.

Hálsólar fyrir hunda

Í gömlu reglugerðinni var bannað að nota hálsólar er gefa rafstuð við „þjálfun“ hunda en nú er innflutningur þessara hluta einnig bannaður þannig að tollayfirvöld eiga að stöðva slíkan innflutning.

Merking og skráning

Í 11. gr. reglugerðarinnar segir:

Umráðamanni hunda, katta og kanína er skylt að auðkenna öll dýr innan 12 vikna aldurs með einstaklingsörmerki skv. alþjóðlegum ISO-staðli. Samtímis er örmerkjanúmerið skráð í miðlægan gagnagrunn sem er samþykktur eða rekinn af Matvælastofnun. Umráðamanni ber að tryggja að upplýsingarnar séu réttar á hverjum tíma. Umráðamaður ber allan kostnað af merkingu og skráningu dýra sinn.

Hundar og kettir sem fara út skulu frá fjögurra mánaða aldri bera hálsól með merki þar sem fram koma eigendaupplýsingar svo sem nafn og símanúmer umráðamanns.

Fyrirlesari sagði þetta atriði sérstaklega mikilvægt því starfsmönnum sveitarfélaga sem finna dýr er heimilt að ráðstafa þeim eða láta lóga séu þau ekki merkt á þennan hátt.

Flutningur gæludýra með flugvélum

Bent var á að flugfélög gjarnan gera þá kröfu að dýr væru deyfð fyrir flug. Reglugerðin tekur á þessu og er slík deyfing aðeins heimil í undantekingartilvikum, í samráði við dýralækni og samkvæmt ákveðnum reglum.

Holdafar

Í reglugerðinni er tekið mið af því að offóðrun dýra er ekki síður hættuleg fyrir dýrið en vanfóðrun og því fylgir viðauki um holdastuðul hinna ólíku dýrategunda sem reglugerðin fjallar um.

Kaflinn um hunda

Í eldri reglugerð um velferð gæludýra er sá tími sem hundur má vera einn heima sex klukkustundir. Þessi tími er nú lengdur í átta. Þóra sagði að ákveðið hefði verið að lengja tímann svo stór hluti hundaeiganda yrði ekki lögbrjótar. Miklar umræður hefðu orðið um þennan lið og bæði sænskar sem og norskar reglur skoðaðar. Í Svíþjóð er tíminn sex klukkustundir sem hundur má vera einn heima en í Noregi átta.

Í reglugerðinni er kveðið á um að ekki má ala undan tík sem hefur tvisvar farið í keisaraskurð. Einnig er lögð áhersla á að búr séu nægilega stór og búr ekki ofnotuð.

Umræður

Hálsólar

Fyrir kaffihlé var tími fyrir umræður um það efni sem búið var að fara í. Spurt var hvort ekki væri sá skilningur Matvælastofnunar á ákvæði í III kafla um almenna meðferð og umhirðu þar sem segir: „Hálsól skal vera úr slíku efni og þannig gerð að hún geti ekki herst að hálsi eða skaðað dýrið á annan hátt“ að hér væri aðeins átt við ólar sem renna í gegnum lykkju og var svar fyrirlesara að svo væri.

Ræktun og æxlun

Í 10. gr III kafla um almenna meðferð og umhirðu segir m.a.: „Ekki skal heldur ala undan dýrum sem vitað er að get ekki fjölgað sér á eðlilegan hátt.“ Í minni fyrirspurn varðandi þetta atriði sagði ég að hér á landi væri hundakyn sem hvorki getur parast né né tíkin eignast hvolpana á eðlilegan hátt og spurði hvort þetta kyn væri þá ekki úr sögunni hér á landi. Í svarinu kom fram að eigendur hunda af þessu kyni væru „að reyna að laga þetta“ eins og það var orðað en ekki kom fram hvernig og hvað yrði gert ef sú „lagfæring“ tækist ekki.

Sex klukkustundir eða átta

Ég sagði það afturför að lengja tímann sem hundur mætti vera einn heima – sagðist þekkja til í Svíþjóð þar sem fólk einfaldlega ræður hundapassara hjá viðurkenndu fyrirtæki sem sér um að viðra hundinn.

Umhverfisþjálfun hunda

Einnig benti ég á ákvæði í 18. grein í kaflanum um velferð hunda en þar segir m.a.:  „Einnig þarf að sinna umhverfisþjálfun og félagslegri þörf hans við manninn“ og sagði að þetta ákvæði gleddi mig mjög því nú myndi Matvælastofnun ganga til liðs við okkur hundaeigendur og fá reglugerð um hollustuhætti breytt þannig að hundaeigandi gæti farið með hundinn sinn inn á veitingahús, í verslanir og almenningsfarartæki. Áður en fyrirlesari gat svarað tók fundarstjóri orðið og lýsti þeirri skoðun sinni að hundar ættu ekkert erindi inn í verslanir og veitingahús. Hundar ættu ekki að vera þar sem væru matvæli. Einnig væri ekki hægt að leyfa hunda í strætisvögnum vegna þess að „sumt“ fólk sem væri hrætt við hunda. Fyrirlesari reyndi aðeins  að lýsa reynslu sinni af veru í öðrum löndum þar sem viðhorf til hunda er miklu afslappaðra.

Eftir kaffihlé

Eftir hlé var komið að þeim hluta reglugerðarinnar sem fjallar um hvaða dýrahald er tilkynningarskylt til Matvælastofnunar. Nokkrar umræður urðu um hvað væri dýraleiga. Einnig var útskýrt af hverju hundaskólar væru ekki tilkynningaskyldir en skýringin er sú að slík starfsemi er leyfisskyld og fellur því undir aðra reglugerð. Margítrekuð var nauðsyn þess að reglugerðin yrði kynnt öllum almenningi og ekki síst ákvæðið um að eigendur láta örmerkja dýrið sitt.

Heimildir Matvælastofnunar

Komið var inn á heimildir Matvælastofnunar – um eftirlit, dagsektir, sektir og að stöðum sé lokað. Ég bað um orðið og spurði hvort það væri ekki rétt skilið hjá mér að Matvælastofnun gæti lokað stað þar sem illa væri farið með dýr og fjarlægt dýr og svaraði fyrirlesari því játandi. Í framhaldi af því spurði ég hvenær Dalsmynni yrði lokað? Áður en fyrirlesari gat svarað brást fundarstjóri harkalega við þessari spurningu minni og sagðist banna umræðu um þetta mál – ekki ætti að ræða um ákveðna aðila. Þetta varð nokkur reiðilestur þótt óvíst hafi verið að hverjum hann beindist en með því tókst fundarstjóra að koma í veg fyrir alla frekari umræðu um fyrirspurnina.

Fyrirspurn var borin upp vegna ákvæðis um eftirlitsskyldu Matvælastofnunar með reglugerðinni og hvort því fylgdi aukið fjármagn. Því var svarað neitandi.

Lokaorð

Þessi nýja reglugerð er til mikilla hagsbóta fyrir gæludýr – ef henni verður fylgt eftir. Í reglugerðinni er áhersla á velferð dýrsins í fyrirrúmi og litið á dýrið sem skyni gædda veru en ekki aðeins sem „eign“ eigandans. Undantekningin frá þessu er að tíminn sem hundur má vera einn er lengdur frá sex klukkustundum í átta.

Matvælastofnun á hrós skilið fyrir að halda málþingið. Mikið verk er þó enn óunnið til þess að kynna  hinum almenna gæludýraeiganda reglugerðina og tek ég undir með Þóru J. Jónasdóttur sem lagði áherslu á að til þess að það megi verða þurfa margir að hjálpast að. Þessi reglugerð fjallar að stórum hluta um gæludýrahald almennt og því er það mín skoðun að Matvælastofnun hefði átt að gefa gæludýraeigendum kost á að kynna sér reglugerðina á meðan hún var í smíðum og senda inn umsagnir. Með því hefði reglugerðin verið kynnt og hinum almenna gæludýraeiganda gefinn kostur á að hafa skoðun á málinu.

Ég get ekki lokið þessum pistli án þess að lýsa undrun minni og vanþóknun á hegðun fundarstjóra sem að mínum dómi eyðilagði stóra hluta umræðnanna. Á þeim ótal mörgu fundum, málþingum og ráðstefnum sem ég hef setið hér á landi sem í öðrum löndum hef ég aldrei orðið vitni að því að fundarstjóri kaffæri fyrirlesara með því að taka af honum orðið aftur og aftur þegar fyrirspurnum er beint til hans og noti tækifærið til þess að lýsa sínum persónulegu skoðunum á efninu sem til umræðu var.

Að lokum skora ég á alla hundaeigendur að kynna sér vel almenna kafla reglugerðarinnar, hlutann um velferð hunda sem og þá viðauka sem eiga við um hunda.

sjá:

http://www.reglugerd.is/reglugerdir/eftir-raduneytum/atvinnuvega–og-nyskopunarraduneyti/nr/0080-2016