Að eiga hund, að missa vin

12074802_10153788686600676_5133839165587494513_n

Þessi fallegu svartbrúnu augu stara á mig og ég sit kyrr og stari á móti. Stari á tölvuskjáinn, síðan ýti ég á örvatakann og kalla fram næstu mynd og held áfram að stara. Engist um og verkjar. Tárin streyma og ég er hætt að sjá, ég ýti aftur á örva takkann og fæ fram næstu mynd. Þessi augu, þetta andlit.

Hún var svo fullkomin litla Pálína mín, ég sit og stari á og fletti það er einhver sefjun að sjá myndirnar, að horfa á hana, en á sama tíma er það svo vont. Hún er farin og kemur ekki aftur. Hún kemur ekki hlaupandi til mín, hoppar upp í fangið og reynir að sleikja mig í framan – eitthvað sem hún mátti aldrei en ó hvað ég vildi finna tunguna hennar leika um kinnarnar. Bara einu sinni, einu sinni enn.

1904275_10152379087155676_2021656071_n

Ég átti bara fyrir nokkrum dögum yndislegan lítinn hund, lítið stýri sem fylgdi mér í öll mín störf og gilti þá engu um það hver þau voru því hún sótti hestana með mér á morgnana, hún stóð hjá (og át hestaskít) þegar hesthúsið var mokað. Hún skoppaði í kringum mig meðan hestarnir voru snyrtir og græjaðir fyrir útreiðartúra.

Hún kom með mér að hitta unglingana í æskulýðsstarfinu, hún kom með mér á fundi út í bæ. Hún kom með mér þegar ég fór með bílinn í smurningu og hún kom með mér á klósettið. Hún lá undir vaskinum þegar ég burstaði tennurnar. Hún sat fyrir utan hurðina með ég fór í sturtu – eða neitaði að fara fram og kom í sturtu með mér.

10551465_10152839186880676_419799851969989405_o

Við borðuðum morgunmatinn saman og oftar en ekki sat hún á stólnum við hliðina á mér. Hún sat líka yfirleitt í framsætinu í bílnum, eitthvað sem var að sjálfsögðu bannað, en hún var snillingur í að komast út úr búrinu í bílnum, ef bílinn var á ferð – en aldrei ef hún var ein í bílnum. Já hún sat með mér þegar ég skrifaði meistararitgerðina mína og hún sat hjá mér þegar ég var að vinna í tölvunni, hún sat hjá mér þegar ég las bók og hún fékk oftar en ekki að sofa upp í. Já og hún var það fyrsta sem ég sá þegar ég vaknaði, hoppandi glöð að ég væri komin á fætur – alltaf svo glöð.

Hún var skugginn minn. Við vorum óaðskiljanlegar, það gekk svo langt að þegar hún var komin að því að gjóta valdi hún að liggja ofan á maganum á mér – þar vildi hún eignast hvolpana sína, í fanginu á mér. Traust, þetta óbilandi traust. 11219225_10153788715030676_5058545334939228831_n

Hún var litli hundurinn minn sem enginn nema sá sem á gæludýr getur skilið hversu heitt ég elskaði. Þessi skilyrðislausa ást sem hundur hefur á eiganda sínum er aldrei hægt að endurgjalda að fullu, hana er ekki hægt að setja í orð, en hún er eitthvað það fallegasta sem til er.

Svo gerast slysin, litli skugginn minn sem sem aldrei vogaði sér nema nokkur skref frá mér, fann sér í þetta eina skipti tilefni til að hlaupa niður á veg. Hvað hún var að stússa þar mun ég aldrei vita, en ég veit að hún var á leiðinni aftur til mín þegar hún hljóp í veg fyrir bíl. Slysin gerast svo hratt en þau sitja í manni lengi á eftir. Minningin um líflausan líkamann yfirtekur allar aðrar minningar. Sannleikurinn og sársaukinn er óumflýjanlegur.

Þennan dag hafði ég margar ástæður fyrir því að vera farin heim og hefði í rauninni ekkert endilega átt að vera að vinna upp í hesthúsi, með einhverja skrambans hálsbólgu og flensu skít. En þetta var svo fallegur dagur, gott verður og hvar er betra að vera þá en einmitt þar. Af hverju, af hverju og af hverju var ég ekki farin, af hverju sá ég hana ekki hlaupa niður heimreiðina, af hverju…

Nú sit ég og vonast eftir að vakna úr þessari martröð, vakna við að Pálína taki gleðistökk og reyni að sleikja á mér andlitið, verði svo æst að ég þarf að fela mig undir sænginni til að losna við að vera öll út slefuð. Leyfa svo trýninu að troða sér undir og litlum líkama að hjúfra sig upp að mér og leggja höfuð í hálsakot.

Lífið heldur áfram og minningin mun lifa en það sem ég mun sakna hennar er ólýsanlegt. Sorg sem við finnum fyrir við gæludýra missi er jafn raunveruleg og sár og önnur sorg. Það kann að hljóma einkennilega fyrir þá sem hafa aldrei átt eða misst gæludýr. En þeir vita það sem þekkja til að hún er jafn nístandi og sár.

Pössum vel upp á dýrin okkar, það er aldrei of varlega farið og munum að aka varlega eftir sveitavegum, það er meira en líklegt að dýr séu á ferð við veginn sem ekki kunna að varast umferðina.

 

1001087_10151873928860676_702591960_n

Það er ekki bara ég ein sem syrgi Pálínu, við erum mörg – hún var einstakur hundur í alla staði. En hún átti einn alveg sérstaklega góðan vin sem elskaði hana svo innilega. Sá er sjö ára, með einhvefu. Hann og Pálína áttu ótrúlega fallegt samband og hann saknar hennar svo. Þessa mynd teiknaði hann nokkrum dögum eftir að hún dó.

12167476_10153322207969195_1230924735_n

999204_10151939461305676_690864965_n-2

 

12546264945_631c4f67ff_o 15096909644_2f873e61d5_o 16050774055_9a8d34a3d6_o