Alþjóðlegur dagur hundsins

Jórunn Sörenen:

Í dag 26. ágúst er alþjóðlegur dagur hundsins. Og það er gott fyrir okkur hundaeigendur að leiða hugann í því af hverju við eigum hund. Af hverju við viljum endilega eiga hund. Í gær hitti ég ungan föður og stálpaða hvolpinn sem fjölskyldan hafði fengið sér. Það var eitt af þessum gefandi augnablikum í lífinu að hlusta á manninn lýsa því hve mikils virði hundurinn er fjölskyldunni og hvernig hann skottast hvern morgunn á milli herbergja barnanna til þess að fagna nýjum degi.

Þegar hundahald var alfarið bannað í Reykjavík og ofsóknir gegn hundum og eigendum þeirra stóð sem hæst og Hundavinafélagið var stofnað skrifaði Eyjólfur Kjalar Emilsson heimspekingur langa grein í Morgunblaðið til varnar hundum og eigendum þeirra. Þar segir hann meðal annars að þegar hann fékk sér hund hafi hann uppfyllt þörf sem hann vissi ekki að hann hafði. Skyldum við ekki mörg kannast við þessa tilfinningu. Við vitum ekkert hvernig það raunverulega er að eiga hund fyrr en einn slíkur er kominn í fjölskylduna. Að tengjast þessu einstaka dýri gefur manni svo miklu meira en hægt er að útskýra fyrir þeim sem aldrei hafa átt hund.

Gerum þennan dag ánægjulegan fyrir hundinn okkar – sem og alla aðra daga.

http://www.nationaldogday.com/