Bókarkynning: Lukka

Jórunn Sörensen:

 

 

Hún er fædd í janúar

og fengin í apríl

svört á feldinn með rauða ól

 

Krakkarnir í Árbænum

höfðu kallað hana Lucky

af því hún var fyrst af sjö í heiminn

 

Við nefndum hana Lukku

urðum að nefna hana Lukku

 

Því lukkan kemur víst alltaf til manns

á fjórum hvítum fótum

 

hallgrimur-helgason

 

Þetta er fyrsta ljóðið í ljóðabókinni „Lukka“ eftir Hallgrím Helgason sem kom út í byrjun vetrar. Í Víðsjá á Rás1 11. nóvember sl. segir Hallgrímur að hann hafi eignast hund fyrir þremur árum og lýsir því hvernig hundurinn hafi leitt hann inn í nýjar aðstæður í þekktu umhverfi. Hundurinn, „núvitundargaur“ og ævinlega glaður, lætur mann horfa öðruvísi á heiminn og staldra lengur við.

Í bókinni ferðumst við með Hallgrími og Lukku um hinar ýmsu lendur borgar og sveitar og sjáum þá hversdagslegu atburði sem þau verða vitni að með þeirra augum – og nefi Lukku.

Þessi bók er mikill fengur jafnt fyrir hundlausa ljóðaunnendur sem hundaeigendur og hundavini. Hún sýnir hið nána samband milli manns og hunds í daglegu lífi – nokkuð sem enginn skilur nema sá sem reynt hefur. Hallgrímur setur þetta samband í ljóðform á svo einstakan hátt að það er hrein unun að lesa – og sjá fyrir sér.

 

Sofandi hundur

áttunda undur veraldar

 

Andardráttur

lágvært hvískur úr löngu röri

 

Innsog

 

Útsog

 

Bein útsending frá fyrstu öldum

hins fyrsta hafs

að falla á fyrstu strönd

 

 

Blóðdropar á parketi

 

Fagurrauðir blóðdropar á glansandi parketi

smáir og kristallstærir tíkartíðablóðsdropar

 

Ég færi þá inn á teikningu af íbúðinni

dreg línur á milli

og virði fyrir mér stjörnumerkið

sem hún hefur teiknað undir líf mitt

 

 

lukka

 

 

https://www.forlagid.is/baekur/lukka/