MINNINGARORÐ
Sigríður leit eitt sinn kánkvís á svip á mig og sagði að hún hefði sagt lækninum sínum að hann yrði að lækna hana því það væri bara til eitt eintak af henni. Og þar hafði hún sannarlega rétt fyrir sér.
Það eru forréttindi að hafa kynnst þessari stórkostlegu konu – henni Sigríði Pétursdóttur. Maður kynnist jú bara einni Sigríði Pétursdóttir á lífsleiðinni: Bóndanum, kennaranum, útflytjandanum, leiðsögumanninum, ræktandanum og dómaranum svo að eitthvað sé talið. Sigríður var bæði höfðingi og heimsborgari. Hún talaði mörg tungumál sem nýttist henni vel þegar hún fór til Englands til að læra verða hundadómari. Sigríður var fyrsti Íslendingurinn sem hóf slíkt nám og var þar langt á undan sinni samtíð eins og í svo mörgu sem hún tók sér fyrir hendur.
Íslenskur fjárhundur vakti athygli Sigríðar eftir að hún og eiginmaður hennar Kjartan Georgsson fluttu á Ólafsvelli og Sigríður sagði það hafi verið ást við fyrstu sýn. Sigríður og Kjartan hófu leit að íslenskum fjárhundi og með aðstoð Páls A. Pálssonar yfirdýrlæknis fengu þau hjónin ekki einungis einn hund heldur hvatti Páll þau til að taka við fleiri hundum og hefja ræktun íslenska fjárhundakynsins á Ólafsvöllum. Næsta skref Sigríðar var að fara til Englands þar sem hún kynntist dómaranum Jean Lanning og ræktandanum Mark Watson og með þeim tókst mikill vinskapur. Í Englandi hóf Sigríður dómaranám og kynnti sér vel ræktunarstörf. Þrátt fyrir strangt innflutningsbann á hundum á þessum tíma fékk Sigríður leyfi til að flytja inn íslenska fjárhunda frá Mark Watson. Hún sagði að Páll A. Pálsson hafi sýnt málinu mikinn skilning og hefði umfram allt viljað að þessu landnámsdýri yrði bjargað frá útrýmingu. Sigríður hóf mikið ræktunarstarf með örfáa hunda og má segja að nafn hennar hafi tengst kyninu alla tíð síðan.
Sigríður Pétursdóttir stofnaði ásamt fleirum Hundaræktarfélag Íslands árið 1969. Markmið félagsins var verndun og ræktun íslenska fjárhundakynsins – það sem Sigríður gerði að lífsstarfi sínu. Nokkrum árum eftir stofnun félagsins tók Sigríður við formannsstöðunni og í hennar höndum varð starfsemi félagsins fjölbreyttari. Félagið hóf skráningu annarra hundakynja ásamt því að sækja um aðild í alþjóðasamtök hundaræktarfélaga, FCI og samtök norrrænu hundaræktarfélaga NKU.
Ást Sigríðar á íslenska fjárhundinum var fölskvalaus og hélst alla ævi. Einu sinni sem oftar vorum við að spjalla um kynið og þá sagði hún:
Fyrir mér er íslenski hundurinn það allra fallegasta, sama hvort hann er snöggur eða loðinn bara að hann sé rétt skapaður með gott lundarfar. Það er það sem þarf að líta á með öll hundakyn ekki bara að hundurinn sé rétt skapaður, hann þarf líka að hafa þá eiginleika sem hann er ræktaður til. Íslenski hundurinn sýnir svo mikil elskulegheit og skilning, skapgerðin hefur svo mikið að segja………
Íslenski hundurinn er draumur hvers manns
Sigríður hlaut margvíslegar viðurkenningar fyrir ræktunarstörf sín. Má meðal annars nefna að árið 2008 veitti forseti Íslands herra Ólafur Ragnar Grímsson, Sigríði riddarakross fyrir störf að ræktun íslenska fjárhundsins. Árið 2004 var Sigríður heiðruð með gullmerki Hundaræktarfélags Íslands og nýlega var hún heiðruð af Islandsk Fårehundeklub í Danmörku
Stærsti heiðurinn hlýtur samt að vera sjálft ræktunarstarf Sigríðar. Myndarlegur stofn íslenskra fjárhunda í dag sem telst ekki lengur vera í útrýmingahættu. Hundurinn sem lifði með þjóðinni í gegnum allar hörmungar sem dundu yfir fyrr á öldum. Að hafa tekið þátt í því að bjarga íslenska fjárhundinum frá útrýmingu er minnismerki Sigríðar Pétursdóttur. Eftir tæplega 50 ára ræktunarstarf er fólk á götunni enn að spyrja um hana, konuna austur á Skeiðum, verndara íslenska fjárhundsins.
Garðabær 20. janúar 2016,
Þórhildur Bjartmarz
Hægt er að finna mörg viðtöl við Sigríði í fjölmiðlum hér eru slóðir á nokkur:
http://timarit.is/viewhttp://timarit.is/search_init.jsp?lang=is&orderby=score&q=t%EDminn+9.+j%FAn%ED+1973_page_init.jsp?issId=326314&pageId=5115874&lang=is&q=P%E9tursd%F3ttir http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=299079&pageId=4472515&lang=is&q=%F3lafsvellir http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=117203&pageId=1502344&lang=ishttp://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=122666&pageId=1707241&lang=is&q=Sigr%ED%F0ur%20P%E9tursd%F3ttir%20%D3lafsv%F6llum&q=P%E9tursd%F3ttir
http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=189508&pageId=2480688&lang=is&q=Sigr%ED%F0ur%20P%E9tursd%F3ttir http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=184616&pageId=2397513&lang=is&q=%D3lafsv%F6llum%20%D3lafsv%F6llum http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=184604&pageId=2397334&lang=is&q=%D3lafsv%F6llum