Hundaeftirlit – til hvers?

Jórunn Sörensen:

Á sunnudegi rétt eftir áramót var hundur á þvælingi fyrir utan heimili mitt og var tekinn inn. Hundurinn var merktur með heimilisfangi og símanúmeri. Ég hringdi í númerið sem var gsm-númer en fékk að vita að ekki væri hægt að ná í farsímann. Sló heimilisfangið inn á ja.is þar var einn maður skráður og með þennan eina síma.

Nú, nú – þá var að finna manninn á Facebook. Hann var þar og ég sendi honum skilaboð. Setti líka tilkynningu inn á „Týnd og fundin dýr“. Þar var strax tekið við sér og málinu deilt á Hundasamfélagið og skilaboð send á eigandann. Ekkert gerðist.

Ég leitaði að síma hjá hundaeftirliti svæðisins. Skrifstofusími var gefinn upp og þar var sjálfvirk símsvörun sem tilkynnti hvenær væri opið. Ég hringdi þá í lögregluna og þar var mér ráðlagt að halda hundinum þangað til hundaeftirlitið opnaði næsta dag eða sleppa hundinum.

Áfram leið dagurinn þar til mér datt í hug að skoða aftur Facebook-síðu eiganda. Þar sá ég að maðurinn hafði ekki sett neitt inn á síðuna sína árum saman svo ekki var hann þar daglegur gestur. En þá datt mér í hug að senda þeim sem höfðu „lækað“ síðustu innkomu mannsins, skilaboð. Það dugði og eigandi hundsins hringdi rétt á eftir. Sótti sinn hund og það urðu fagnaðarfundir.

Þetta atvik vakti minn enn einu sinni til umhugsunar um það gjörsamlega óviðunandi ástand sem við, hundaeigendur, búum við. Okkur er gert að borga þúsundir króna árlega svo að við fáum – náðarsamlegast – að halda hund á okkar eigin heimili. En hver er þjónustan sem við fáum? Engin. Það er hið stutta, sanna svar. Ef hundur finnst á vergangi utan skrifstofutíma er okkur ráðlagt að sleppa honum! Og það er lögreglan sem ráðleggur það! Í fyrsta lagi veit ég ekki betur en að lausaganga hunda sé bönnuð í þéttbýli og í öðru og mikilvægara lagi getur laus hundur – tala ekki um í myrkri um hávetur – valdið sjálfum sér og öðrum óbætanlegu slysi í umferðinni, jafnvel dauða. Svo maður tali nú ekki um líðan dýrs sem er á þvælingi í kulda þar sem skotglaðir menn eru enn að sprengja alls konar bombur.

Hvenær hættum við, hundaeigendur, að láta bjóða okkur svona ástand?