Hvaða reglur gilda um hundahald í Reykjavík?

Nr. 478 16. maí 2012 SAMÞYKKT um hundahald í Reykjavík.

1. gr. Leyfi til hundahalds. Hundahald er heimilað í Reykjavík að fengnu leyfi og uppfylltum þeim skilyrðum, sem sett eru í samþykkt þessari.

2. gr. Skilyrði fyrir leyfi. Leyfi til hundahalds má veita að uppfylltum eftirtöldum skilyrðum: a. Umsækjandi skal vera lögráða. Leyfið er persónubundið, óframseljanlegt og bundið við heimili umsækjanda enda er það ófrávíkjanlegt skilyrði að hundur sé skráður þar og haldinn. b. Við mat umsóknar getur Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur leitað umsagnar lögreglu og annarra yfirvalda um umsækjanda og þá hagi hans sem þýðingu geta haft. c. Hafi umsækjandi ítrekað eða gróflega gerst brotlegur við samþykkt þessa eða fyrri samþykktir sama efnis eða lög um dýravernd, er heimilt að hafna umsókn hans. d. Umsókn skal fylgja staðfesting um að umsækjandi hafi sótt námskeið um hundahald, viðurkennt af Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur eða meðmæli tveggja valinkunnra manna um hæfi hans til að halda hund. e. Að fyrir liggi samþykki sameigenda fjöleignarhúss þar sem það á við, sbr. 5. gr. f. Að keypt sé ábyrgðartrygging vegna hundsins, sbr. 10. gr. g. Að hundurinn sé örmerktur, sbr. 11. gr.

3. gr. Bannaðar hundategundir. Óheimilt er að halda hunda af eftirtöldum tegundum: a. Pit Bull Terrier b. Fila Brasileiro c. Toso Inu d. Dogo Argentino e. Amerískur bulldog f. Amerískur staffordshire (amstaff) g. Boer boel h. Miðasískur ovtjarka i. Anatolískur fjárhundur (kangal) j. Kákasískur ovtjarka k. Sarplaninac l. Suðurrússneskur ovtjarka m. Tornjak n. Blendinga af ofangreindum tegundum o. Blendinga af úlfum og hundum p. Aðrar tegundir sem hættulegar eða óæskilegar eru að fenginni reynslu eða mati sérfróðra aðila, s.s. dýralæknis eða hundaþjálfara, sem viðurkenndur er af Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur.

4. gr. Hundar á lögbýlum. Hunda á lögbýlum skal skrá og skulu eigendur þeirra greiða skráningargjald fyrir hvern hund en þeir eru undanþegnir árlegu eftirlitsgjaldi fyrir allt að tvo hunda. Hundar á lögbýlum mega eingöngu vera lausir á landi þeirra. Að öðru leyti gilda önnur ákvæði samþykktarinnar um hunda á lögbýlum. Nr. 478 16. maí 2012

5. gr. Hundar í fjöleignarhúsum o.fl. Þegar sótt er um leyfi til að halda hund í fjöleignarhúsi gilda ákvæði laga um fjöleignarhús nr. 26/1994 með síðari breytingum. Ef annað er ekki tekið fram, nær samþykki skv. e- lið 2. gr. einvörðungu til eins ákveðins hunds og gildir á meðan hann lifir. Heimilt er að afturkalla samþykkið ef forsendur breytast verulega. Ástæður, sem réttlætt geta afturköllun eru m.a. heilbrigðisástæður, svo sem ofnæmi, óþægindi og ónæði, sem fer verulega fram yfir það, sem venjulegt og eðlilegt er. Ef um er að ræða annars konar sameign en getur í 1. mgr., eða nábýli af öðrum toga og sameigandi eða nágranni telur hundahaldið fara í bága við rétt sinn og hagsmuni, s.s. vegna ofnæmis eða ítrekaðs eða verulegs ónæðis og færi hann fram gild rök og fullnægjandi gögn því til stuðnings, getur heilbrigðiseftirlitið synjað um umbeðið leyfi eða afturkallað áður veitt leyfi. Ef íbúð í fjöleignarhúsi er leigð út skal leigusali upplýsa leigjanda um hvort hundahald er leyft í húsinu.

6. gr. Hundaræktun. Til hundaræktunar telst starfsemi þar sem haldin eru sex eða fleiri dýr og ræktun fer fram, sbr. reglugerð nr. 1077/2004 um aðbúnað og umhirðu gæludýra og dýrahald í atvinnuskyni. Heimilt er að skrá hunda sem undaneldishunda við hundarækt og eru þeir undanþegnir eftirlitsgjöldum sbr. 12. gr. Hunda sem skráðir eru sem undaneldishundar við skráða hundarækt er óheimilt að flytja frá athafnasvæði hundaræktunarstöðvar og skal haldið þar og mega aldrei ganga lausir né á meðal almennings. Heimilt er Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur að veita undanþágu frá ákvæði þessu ef ætlunin er að sýna hundana á viðurkenndum hundasýningum, enda framvísi ræktandi tryggingu vátryggingafélags fyrir því tjóni sem hundur kann að valda þriðja manni. Undaneldishundar skulu bera hálsól með merkiplötu sem greinir þá frá öðrum hundum. Að öðru leyti gilda ákvæði 1. mgr. 9. gr. um hundaskrá. Undaneldishundar skulu örmerktir samkvæmt stöðlum Alþjóðastaðlaskrárráðsins (ISO 11784 eða 11785). Skylt er að ormahreinsa undaneldishunda á hverju ári. Vottorð dýralækna um ormahreinsun skal skilað til Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur fyrir 31. desember ár hvert. Hundar sem ræktaðir eru hjá hundarækt til sölu skal skrá þegar þeir ná fjögurra mánaða aldri. Tilkynna skal Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur fjölda þeirra í júní og desember ár hvert svo og hverjum þeir voru seldir eða önnur afdrif þeirra. Óheimilt er að selja hunda frá hundaræktunarstöð, nema kaupandi framvísi lögmætri skráningu á hundinum á lögheimili sínu eða samþykki sveitarstjórnar þar sem hundar eru ekki skráningarskyldir. Skylt er að ormahreinsa hunda og örmerkja samkvæmt stöðlum Alþjóðastaðlaskrárráðsins (ISO 11784 eða 11785) áður en þeir eru afhentir kaupanda. Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur er heimilt að telja fjölda hunda á hundarækt til að sannreyna fjölda undaneldishunda og hunda sem ræktaðir eru til sölu.

7. gr. Fyrirfram samþykki, leyfi, utanborgarhundar, skammtímaheimsóknir. Áður en hundur/hvolpur er tekinn inn á heimili í fjöleignarhúsi skal afla samþykkis samkvæmt 5. gr. Hundar, sem ekki eru skráðir í Reykjavík mega ekki dveljast þar lengur en einn mánuð nema með leyfi Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur og að fengnu samþykki samkvæmt 5. gr. Um skammtímaheimsóknir hunda í hús gildir ákvörðun eigenda einbýlis- og fjöleignarhúsa hverju sinni og/eða reglur viðkomandi húsfélags auk laga um fjöleignarhús. Nr. 478 16. maí 2012

8. gr. Umsóknir, skráning og frestir. Umsókn um leyfi til hundahalds skal senda Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur innan mánaðar frá því að hundur/hvolpur er tekinn inn á heimili, enda hafi leyfis skv. 5. gr. verið aflað. Umsókn skal fylgja greiðsla skráningargjalds, sbr. 12. gr. Heimilt er að halda hvolpa, sem vistaðir eru á skráningarstað móður, án skráningar þar til þeir verða 4 mánaða.

9. gr. Hundaskrá, tilkynningarskylda eiganda. Upplýsingar um hundinn skal skrá hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur. Skrá yfir veitt leyfi er birt á heimasíðu umhverfis- og samgöngusviðs Reykjavíkurborgar. Skrá skal heiti, aldur, kyn, tegund, litarhátt, númer örmerkis og önnur einkenni hundsins. Þar skal einnig skrá nafn og heimilisfang leyfishafa. Leyfishafi fær afhenta merkta plötu, sbr. 11. gr. og eintak af samþykkt um hundahald í Reykjavík. Hundaeiganda ber að tilkynna Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur um aðsetursskipti. Einnig skal hann tilkynna heilbrigðiseftirlitinu ef hundurinn deyr eða er fluttur úr lögsagnarumdæminu og hvert hann flytur. Eigendaskipti skal tilkynna með sama hætti. Tilkynningar skulu berast eins fljótt og kostur er og eigi síðar en mánuði frá breytingum.

10. gr. Ábyrgðartrygging. Leyfishafa er skylt að hafa í gildi ábyrgðartryggingu vegna hundsins og gerir heilbrigðisnefnd heildarsamning við tryggingarfélag eða félög um slíka tryggingu. Iðgjald skal innifalið í skráningargjaldi og árlegu eftirlitsgjaldi, sbr. 12. gr. Skal ábyrgðartryggingin ná til alls þess tjóns, sem hundurinn kann að valda mönnum, dýrum, gróðri og munum.

11. gr. Ormahreinsun, örmerking, merkiplata. Skylt er að ormahreinsa hunda á hverju ári skv. reglugerð nr. 941/2002 um hollustuhætti. Skylt er að ormahreinsa alla hunda fjögurra mánaða og eldri. Þar sem búrekstur er skulu hundar ormahreinsaðir að liðinni aðalsláturtíð eða í desember árlega. Nýgotnar tíkur og þriggja til fjögurra vikna hvolpar skulu spóluormahreinsaðir sérstaklega skv. leiðbeiningum dýralæknis. Vottorði dýralækna um ormahreinsun skal skilað til eftirlitsaðila fyrir 31. desember ár hvert. Hundur sem sótt er um leyfi fyrir skal örmerktur af dýralækni samkvæmt stöðlum Alþjóðastaðlaskrárráðsins (ISO 11784 eða 11785). Einnig skal hundurinn ávallt bera ól með plötu um hálsinn. Á plötuna skal greypa skráningarnúmer hundsins og símanúmer eiganda hans. Þá skal við ólina festa merki, sem sýni að árlegt eftirlitsgjald hafi verið greitt.

12. gr. Gjöld fyrir leyfi. Fyrir leyfi til að halda hund skal leyfishafi greiða gjöld sem renna í borgarsjóð, annars vegar leyfisgjald og hins vegar eftirlitsgjald. Gjöldum þessum er ætlað að standa undir kostnaði borgarinnar af hundahaldinu og framkvæmd samþykktar þessarar. Borgarstjórn setur gjaldskrá samkvæmt ákvæðum 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Leyfisgjaldið greiðist við skráningu hunds og eftirlitsgjald síðan árlega 1. mars með eindaga 1. apríl ár hvert. Dragist greiðsla lengur en mánuð fram yfir eindaga fellur leyfið niður. Heimilt er að veita þeim hundaeigendum, sem sótt hafa námskeið viðurkennt af Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur um meðferð hunda allt að helmings (50%) afslátt af árlegu eftirlitsgjaldi, enda hafi leyfishafi ekki gerst brotlegur við samþykkt þessa. Af undaneldishundum skal ekki greiða árlegt eftirlitsgjald. Nr. 478 16. maí 2012

13. gr. Helstu varúðar-, aðgæslu- og umgengniskyldur hundeigenda. Leyfishafi skal gæta þess vel, að hundur hans valdi ekki hættu, óþægindum eða óþrifnaði, né raski ró manna. Hundaeigendum er ávallt skylt að fjarlægja skít eftir hundinn. Óheimilt er að láta hunda vera lausa innan marka þéttbýlis, nema nytjahunda, þegar þeir eru að störfum í gæslu eiganda eða umráðamanns. Hundar skulu annars ávallt vera í taumi utan húss, sbr. þó 15. gr., og í umsjá manns, sem hefur fullt vald yfir þeim. Heimilt er þó að hafa hunda lausa undir eftirliti ábyrgs aðila innan hundheldrar girðingar. Óheimilt er að tjóðra hund án eftirlits ábyrgs aðila. Þegar hundur er tjóðraður á lóð, skal taumurinn ekki vera lengri en svo að að komast megi óhindrað að aðaldyrum húss. Bannað er að árásarþjálfa hunda nema í löggæsluskyni.

14. gr. Taumskylda og sérstakar takmarkanir. Taumskylda er í öllu borgarlandinu nema annað sé tekið fram og skal umráðaaðili hunds virða hana. Heimilt er að vera með hunda í taumi á göngustígum borgarinnar, í almenningsgörðum, í Heið- mörk, nema á brunnsvæðum, á hesthúsasvæðum í Víðidal og á Víðivöllum og ávallt í fylgd ábyrgs aðila. Óheimilt er að fara með hunda á almennar samkomur, á útivistarsvæðin utan göngustíga í Heiðmörk og Öskjuhlíð á varptíma fugla (1. maí-15. ágúst), í hólmana í Elliðaárdal, bakka Elliða- ánna um laxveiðitíma við merkta veiðistaði (1. júní-15. október) og í Nauthólsvík.

15. gr. Staðir þar sem hundar mega vera lausir. Heimilt er að sleppa hundum lausum á eftirtöldum stöðum og svæðum, þó alltaf undir umsjá ábyrgs aðila: 1. Geirsnefi. 2. Geldinganesi. 3. Við Rauðavatn utan göngustígs við vatnið. 4. Innan hundaheldra girðinga, hundaæfingasvæða og annarra svæða, sem samþykkt hafa verið af umhverfis- og samgönguráði að fenginni umsögn heilbrigðisnefndar. 5. Auðum svæðum fjarri íbúðabyggð.

16. gr. Óheimilir staðir skv. ýmsum reglugerðum. Ekki má hleypa hundum inn í húsrými, s.s. skóla, leikvelli, íþróttavelli eða þá staði, sem um getur í 1. mgr. 19. gr., sbr. fylgiskjal 3 í reglugerð um hollustuhætti nr. 941/2002. Einnig er óheimilt að hleypa hundum inn í húsnæði matvælafyrirtækja, sbr. reglugerð nr. 103/2010 um gildistöku reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 852/2004 um hollustuhætti sem varða matvæli, og inn í húsnæði vatnsveitna sbr. reglugerð nr. 536/2001 um neysluvatn og reglugerð nr. 405/2004 um náttúrulegt ölkelduvatn og átappað lindarvatn. Framangreindir staðir eru m.a. eftirfarandi: 1. Vatnsveitur, brunnsvæði vatnsverndar, brunnar og sjóveitur. 2. Heilbrigðis- og meðferðarstofnanir þ. á m. lækna- og tannlæknastofur, sjúkrahús og sjúkra- þjálfun. 3. Matvælafyrirtæki hvers konar þ. á m. veitingastaðir og matvöruverslanir. 4. Gististaðir. 5. Skólar og gæsluvellir. 6. Snyrtistofur hvers konar. 7. Íþróttahús og heilsuræktarstöðvar. Nr. 478 16. maí 2012 8. Samkomuhús hvers konar og staðir þar sem almenningur hefur aðgang að vegna afgreiðslu og þjónustu. Heimilt er þó að fara með hunda inn í íþróttamannvirki, heilbrigðisstofnanir, snyrtistofur þegar og þar sem starfsemin er sérstaklega ætluð dýrum.

17. gr. Frávik og undanþágur. Víkja má frá fyrirmælum samþykktar þessarar sem banna eða takmarka umferð og dvöl hunda um tiltekna staði þegar um er að ræða hunda, sem notaðir eru til löggæslu- eða björgunarstarfa eða sem sérþjálfaðir leiðsögu- og hjálparhundar. Heilbrigðisnefnd getur einnig veitt undanþágu frá framangreindum ákvæðum í sérstökum tilvikum, þó ekki frá ákvæðum sem er að finna í reglugerðum og lögum.

18. gr. Lausir hundar, handsömun, geymsla, aflífun, kostnaður. Sleppi hundur frá eiganda eða umráðamanni, skal viðkomandi tafarlaust gera ráðstafanir til að handsama hann. Hunda í lausagöngu skal færa í sérstaka hundageymslu og tilkynna eiganda, sé hundur merktur, um handsömunina svo fljótt sem auðið er. Eigandi hunds skal greiða allan kostnað við handsömun og geymslu hans, áður en hann er afhentur á ný. Ef hunds er ekki vitjað innan einnar viku frá handsömun, er heimilt að ráðstafa honum til nýs eiganda eða selja hann fyrir áföllnum kostnaði. Að öðrum kosti skal hann aflífaður. Hafi hundur verið handsamaður, er óheimilt að afhenda hann fyrr en að lokinni skráningu, greiðslu leyfisgjalds og áfallins kostnaðar. Kostnaður við handsömun, geymslu eða aflífun hunds skal að fullu greiddur af eiganda.

19. gr. Grimmir, varasamir og hættulegir hundar. Aflífun. Hafi eigandi hunds eða eftirlitsaðili ástæðu til að ætla að hundurinn sé grimmur eða varasamur, skal eigandi sjá til þess að hundurinn sé ávallt mýldur utan heimilis síns. Ef hundur telst hættulegur, getur eftirlitsaðili, tjónþoli eða forráðamaður hans krafist þess að hundurinn verði aflífaður og er þá skylt að verða við þeirri kröfu, enda hafi verið leitað álits sérfróðra aðila, s.s. dýralækna eða hundaþjálfara, sem viðurkenndir eru af Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, áður en ákvörðun um aflífun er tekin. Allur kostnaður vegna skapgerðarmats og vistunar hunds skal greiddur af hundeiganda. Hafi hundur bitið tvisvar eða oftar og/eða valdið skaða, má aflífa hann án frekari viðvarana.

20. gr. Svipting leyfis vegna brota. Ef hundaeigandi brýtur gegn lögum um dýravernd, dýrahald, samþykkt þessari eða öðrum reglum, sem um dýrahald gilda, getur heilbrigðisnefnd Reykjavíkur afturkallað leyfi til hans og/eða bannað honum að vera með hund í lögsagnarumdæmi Reykjavíkurborgar.

21. gr. Lögregluaðstoð. Nánari reglur. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur getur ef þörf krefur leitað atbeina lögreglu við að framfylgja samþykkt þessari og ákvörðunum teknum á grundvelli hennar. Heilbrigðisnefnd Reykjavíkur getur sett nánari reglur um framkvæmd samþykktar þessarar.

22. gr. Refsiviðurlög. Brot gegn samþykkt þessari varða sektum hvort sem þau eru framin af ásetningi eða stórfelldu gáleysi. Sé um að ræða stórfellt eða ítrekað ásetningsbrot skulu þau að auki varða fangelsi allt að Nr. 478 16. maí 2012 fjórum árum. Mál út af brotum gegn samþykkt þessari skulu sæta málsmeðferð sem boðin er í lögum nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

23. gr. Áður veittar undanþágur. Þær undanþágur frá banni við hundahaldi, sem veittar hafa verið fyrir gildistöku samþykktar þessarar, halda gildi sínu. Að öðru leyti gilda ákvæði samþykktar þessarar um áður veittar undan- þágur.

24. gr. Stjórnsýsla. Kæruheimild. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur fer með málefni heilbrigðisnefndar Reykjavíkur samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, sbr. heimild í 3. mgr. 37. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og fer því með málefni hunda og hundahalds í lögsagnarumdæmi Reykjavíkurborgar og annast Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur þau mál í umboði nefndarinnar. Öllum ákvörðunum sem Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur tekur á grundvelli samþykktar þessarar má skjóta til úrskurðar heilbrigðisnefndar Reykjavíkur. 25. gr. Lagagrundvöllur. Samþykkt þessi staðfestist hér með skv.

25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir til þess að öðlast þegar gildi. Frá sama tíma fellur úr gildi samþykkt nr. 52/2002 um hundahald í Reykjavík með síðari breytingum. Umhverfisráðuneytinu, 16. maí 2012.

F. h. r. Sigurbjörg Sæmundsdóttir. Íris Bjargmundsdóttir. __________ B-deild – Útgáfud.: 5. júní 2012