Þegar reglur verða þýðingarmeiri en mannúð

Jórunn Sörensen skrifar:

Í fyrra þurfti gamall maður á Djúpavogi að leita sér lækninga í Reykjavík. Maðurinn heitir Björn Jónsson og býr einn með litlu tíkinni sinni, Emblu, eftir að konan hans lést. Embla er að verða tíu ára og á milli hennar og Björns hefur myndast afar sérstakt og náið samband. Björn notaði tækifærið og varð samferða syni sínum og fjölskyldu hans suður en þau höfðu verið hjá honum í heimsókn. Að sjálfsögðu fór Embla með.

Ferðin suður gekk vel og heimsóknin til læknisins líka en að fór í verra þegar þau, Björn og Embla ætluðu heim. Björn hafði hugsað sér að taka strætó austur á Höfn og þaðan með flugrútunni til Djúpavogs. Nei – ekki við það komandi að litla Embla mætti fara í stætisvagninn. Ekki einu sinni þótt hún væri höfð í búri. Ástæðan: Einhver gæti verið með ofnæmi. Björn varð því að taka flug til Egilsstaða og láta sækja sig þangað 150 km leið til þess að komast heim með hundinn sinn.

Það kom margt upp í hugann þegar Elín Lára Sigurðardóttir, stjúpdóttir Björns, sagði mér frá þessu atviki og ekki allt fallegt. Skoðum nokkur atriði. Björn ætlaði að taka flugrútuna til Djúpavogs því í það almenningsfarartæki eru hundar velkomnir. Hvernig stendur á því? Jú – það má taka hunda með í flug og eigandi hunds verður að komast með hundinn alla leið heim. Þá vaknar líka spurningin – hvað með aðra farþega flugrútunnar? Er enginn þeirra með ofnæmi?

Þetta ofnæmisofstæki sem ríður húsum hér á landi er farið langt út yfir öll takmörk. Svona þvæla þekkist ekki í nágrannalöndum okkar þar sem hundur er velkominn með eiganda sínum í almenningsfarartæki. Þessi þrautaganga Björns og Emblu rifjar upp frásögn sem góð vinkona mín sagði mér. Hún ferðast mikið til útlanda vegna vinnu sinnar og eitt sinn var hún og samstarfsmaður hennar í vinnuferð og tóku flug frá Serbíu til Þýskalands. Vinnufélaginn settist hjá konu sem var með hund í fanginu. Þessi maður er með ofnæmi fyrir hundum – í alvöru. En málið leystist farsællega því vinkona mín og hann skiptu bara um sæti. Svo er gott að gera sér grein fyrir því að ef manneskja hefur bráðaofnæmi fyrir hundum og gengur með viðeigandi lyf á sér, getur hún ekki einu sinni verið nálægt hundaeiganda þótt enginn hundur sé með í för.

Niðurstaða mín er þessi: Það er eitthvað mikið að í samfélagi sem fer svona með aldraðan mann og hundinn hans.

Ég set hér fyrir neðan vísanir í tvær vísindagreinar. Önnur staðfestir það sem allir vita að hve gæludýr eru mikils virði fyrir eldra fólk og hin er um læknandi mátt þess að umgangast hunda.

http://www.talltrees.net.au/2015/new-study-confirms-already-knew-pets-great-elderly/

http://www.angelonaleash.org/studies-the-amazing-healing-power-of-therapy-dogs/

Ef þú vilt koma athugasemd á framfæri við þennan pistil sendu mér þá línu á vorverk@simnet.is