Bankastarfsemi í Reykjavík og Amsterdam

Jórunn Sörensen:

Sunnudaginn 8. nóvember sl. birti Viðar Eggertsson eftirfarandi færslu á Facebook-síðu sinni:

Þurfti að hitta þjónustufulltrúa í Landsbankanum og batt hundinn minn, Drakúla litla, fyrir utan meðan ég sinnti erindinu. Eftir nokkra stund kom starfsmaður bankans hlaupandi með hundinn til mín og sagði að öryggisvörður í bankanum hefði séð að einhverjir voru að ræna hundinum mínum og hann náði að bjarga honum frá þeim. Landsbankinn fær hrós fyrir þetta!

Ég fór fram á að starfsmaðurinn sem bjargaði Drakúla litla úr ræningjahöndum yrði sæmdur titlinum “Starfsmaður mánaðarins”!

EN, þegar ég hafði sinnt erindinu og var að labba með hundinn út úr bankanum þá kom annar öryggisvörður frá Securitas í bankanum og sagði við mig að ég mætti ekki hafa hund í bankanum! Ég þurfti að skýra út fyrir manninum í smáatriðum hvernig í málinu lá og að bankastarfsmenn hefðu komið hundinum til mín í bankann. Securitas í Landsbankanum fær ekki hrós fyrir þetta!

Þegar ég gekk út þá stóð mér til boða að segja til um hvernig mér hafði þótt þjónustan. Ég hefði vilja ýta á báða takkana: Þennan sem sýndi: broskall og þennan sem sýndi fýlukall.

 

Þegar ég las frásögn Viðars rifjaðist upp fyrir mér nærri þrjátíu ára gamalt atvik sem átti sér stað í stórum banka í Amsterdam. Feikistórum banka með hvítum marmaragólfum. Ég var þar á ferðalagi og þurfti á þjónustu banka að halda. Á meðan ég beið eftir því að röðin kæmi að mér settist ég í einn af nokkrum sófum sem stóðu í röð á miðju gólfi. Rétt hjá mér sat gömul kona og hundurinn hennar sat við fætur hennar.

Ég man að ég horfði mikið á konuna og hugsaði: „Hvað er manneskjan að gera inni í banka með hund.“ Aðrir viðskiptavinir sem á annað borð skiptu sér af konunni og hundinum, beygðu sig niður, klöppuðu hundinum og brostu til eigandans. Ég naut þess að horfa á þetta mikla umburðarlyndi. En allt í einu sé ég hvar öryggisvörður kemur askvaðandi í átt til okkar. Þetta var kona, mikil að vöxtum, svartklædd með kylfu við beltið og talstöð á bringunni. Ég fékk dundrandi hjartslátt og það sló út á mér svitanum. Öryggisvörðurinn stefndi beint á okkur sem sátum í sófunum. Ég sat lömuð af skelfingu og beið eftir því sem myndi gerast.

Það sem gerðist var að öryggisvörðurinn klappaði hundinum og brosti til gömlu konunnar. Sagði eitthvað fallegt um hundinn og skálmaði svo áfram sína leið.

 

Þessar tvær frásagnir segja allt sem segja þarf. Viðhorfið sem við, hundaeigendur, búum við af hálfu yfirvalda, er hvorki okkur né hundunum okkar bjóðandi. Breytum þessu!