Hvað er ræktunarmarkmið?

Þórhildur Bjartmarz:

Það styttist í næstu hundasýningu Hundaræktarfélags Íslands sem verður  haldin um næstu helgi.

Oft hef ég verið spurð að því á hvolpanámskeiðum hvert viðmiðið sé þegar dómari dæmir hund á hundasýningu. Ég ætla að reyna að útskýra það í stuttu máli.

Allir hundar sem eru dæmdir á hundasýningum HRFÍ eru með ættbók sem viðurkennd er af félaginu og alþjóðasambandi hundaræktarfélaga FCI.

Hver hundategund á sitt ræktunarmarkmið (standard) sem heimaland hundsins gefur út og ber ábyrgð á. Þar segir í helstu atriðum hvernig hundurinn á að líta út. Til dæmis stærð hundsins, leyfilegir litir, feldgerð og svo segir frá eiginleikum í stuttu máli. Við getum sagt að þetta sé einhverskonar uppskrift af hundinum sem ræktendur hafa að leiðarljósi þegar undaneldisdýr eru valin.

Dómarar sem dæma viðkomandi tegund á hundasýningu hafa tekið próf í tegundinni. Þeir meta hundana við ræktunarmarkmið tegundarinnar.

Alþjóðasamtök hundaræktarfélaga FCI heldur utan um ræktunarmarkmið allra viðukenndra hundategunda og sér um að dreifa þeim til aðildafélaganna. Þannig að ef breyting verður á ræktunarmarkmiði fyrir t.d. íslenskan fjárhund þá sér HRFÍ um að senda breytt ræktunarmarkmið til FCI sem sér síðan um að senda það áfram til allra aðildalanda sinna.

Á þessum link má sjá ræktunarmarkmið allra tegunda í stafrófsröð:

http://www.fci.be/en/Nomenclature/races.aspx

Ef ég vel I þá finn ég ræktunarmarkmið fyrir íslenskan fjárhund á ensku, spænsku, frönsku og þýsku.

Á heimasíðu deildar íslenska fjárhundsins er hins vegar hægt að finna íslensku útgáfuna.

Öll ræktunarmarkmið hafa sitt númer og svo sjáum við hvenær gildandi ræktunarmarkmið hefur verið gefið út. Meðfylgjandi ræktunarmarkmið um íslenskan fjárhund hefur verið í gildi frá árinu 1999 en upphaflegi útgáfudagur er 1987. Svo segir að hundurinn hafi þá eiginleika að vera smalahundur og tilheyri tegundahópi 5. Ég hvet alla til að kynna sér ræktunarmarkmið sinnar tegundar. Sumar deildir hafa þýtt ræktunarmarkmið „sinna“ tegunda á íslensku og þá má finna þau á síðu viðkomandi ræktunardeildar.

 

Hér fylgir með ræktunarmarkmið fyrir íslenskan fjárhund:

 

DSCN6360

myndir: Chris Eisenga

  • Ræktunarmarkmið fyrir íslenskan fjárhund.

FCI ræktunarmarkmið nr. 289/13.05.1999

 

UPPRUNI OG HEIMALAND: Ísland.

UPPHAFLEGUR ÚTGÁFUDAGUR: 24.06.1987

EIGINLEIKAR:

FCI-FLOKKUN:

  • Tegundahópur 5
  • Spísshundur.
  • Flokkur 3.
  • Norrænn vakt- og smalahundur.
  • Vinnuprófs er ekki krafist

SAGA

Íslenski fjárhundurinn er eini þjóðarhundur Íslendinga. Hann barst til landsins þegar á landnámsöld með norrænum víkingum. Hundurinn varð bændum ómissandi við smölun og yfirsetu og vinnueiginleikar hans hafa aðlagast landslagi, búskaparháttum og harðri lífsbaráttu Íslendinga á liðnum öldum.

Á síðustu áratugum hafa vinsældir íslenska fjárhundsins aukist og þrátt fyrir að stofninn sé ekki stór, telst hann ekki lengur í útrýmingarhættu.

HEILDARSVIPUR:  

Íslenski fjárhundurinn er norrænn smalahundur, tæplega meðalstór með upprétt eyru og hringað skott. Séð frá hlið mynda lengd og hæð hundsins rétthyrning, en lengd frá bringubeini aftur að setbeini verður að vera meiri en hæð hans á herðakamb. Hæð framfóta á að vera jöfn hæð brjóstkassa.

Mildur, greindarlegur og oft brosleitur svipur, öruggt og fjörlegt fas er einkennandi fyrir íslenska fjárhundinn.

Hárafar er með tvennu móti, ýmist snöggt eða loðið, en ávallt þétt og hrindir vel frá sér vætu.

Útlitsmunur er greinilegur á milli hunds og tíkar.

EIGINLEIKAR OG LUND:

Íslenski fjárhundurinn er fimur og þolinn smalahundur sem geltir og nýtist vel til að reka og safna saman búfénaði úr haga eða af fjalli og til fjárleita.

Vakteðli er hundinum eiginlegt og sýnir hann áberandi gestalæti er ókunna ber að garði, án þess þó að vera árásargjarn. Veiðieiginleikar eru ekki áberandi í fari hans.

Íslenski fjárhundurinn er glaður og vingjarnlegur hundur, forvitinn og  fjörmikill með ljúfa lund, harðger og óragur.

HÖFUÐ:

Höfuð er sterklegt  og húð þéttliggjandi. Lengd höfuðkúpu er ívið meiri en lengd trýnis. Séð ofanfrá og frá hlið myndar höfuðið þríhyrning.

Höfuðkúpa:  Höfuðkúpa er aðeins hvelfd.
Ennisbrún: Ennisbrún er greinileg, en hvorki há né brött.
Nef: Nef er svart en dökkbrúnt á mórauðum og leirhvítum hundum.
Trýni: Trýni er kröftugt, fremur stutt og beint og mjókkar fram í snubbóttan þríhyrning séð bæði frá hlið og ofanfrá.
Varir: Varir liggja þétt að kjálkum,  litaraft svart en dökkbrúnt á mórauðum og leirhvítum hundum.
Bit og tennur: Kjálkar og tennur mynda skærabit. Fulltenntur.
Kinnar: Kinnar eru sléttar.
Augu: Augu eru í meðallagi stór og möndlulaga, dökkbrún á lit en aðeins ljósari á mórauðum og leirhvítum hundum. Hvarmalitur er svartur en dökkbrúnn á mórauðum og leirhvítum hundum.
Eyru: Eyru eru í meðallagi stór og upprétt og nálgast jafnarma þríhyrning að lögun. Brúnir eru sléttar en eyrnabroddar aðeins ávalir. Eyrun eru hreyfanleg og kvik og undirstrika athygli og hugarástand hundsins.

HÁLS: 

Háls er í meðallagi langur og reistur, sterklegur og hvelfdur við hnakka. Húð er þéttliggjandi.

BOLUR: 

Bolur er sterklegur og í samræmi við byggingu hundsins og heildarsvip.

Bak: Bak er sterklegt, vel vöðvafyllt og beint.
Brjóstkassi: Brjóstkassi er langur, djúpur og vel hvelfdur.
Lend: Lend er breið og vöðvafyllt .
Spjaldhryggur: Spjaldhryggur er tiltölulega stuttur, breiður, ávalur og vel vöðvafylltur.
Kviður: Kviður er aðeins uppdreginn.

SKOTT: 

Skott er  hátt ásett og hringast upp á bakið.

ÚTLIMIR:

FRAMFÆTUR: Framfætur séðir framan frá eru samsíða, beinir og sterkbyggðir. Liðbeygjur eru eðlilegar.

Bógar: Herðablöð eru vel hallandi og bógar vel vöðvafylltir.
Sporar: Sporar mega vera tvöfaldir.
Loppur: Lögun loppunnar er aðeins ílöng, tær eru hvelfdar og liggja þétt saman. Þófar eru stinnir.

AFTURFÆTUR:  Afturfætur séðir aftan frá eru samsíða, beinir og sterkbyggðir. Liðbeygjur eru eðlilegar.

Læri: Læri eru breið og vöðvamikil.
Sporar: Sterklegir, tvöfaldir sporar (fjársporar), eru mjög æskilegir.
Séu tvöfaldir sporar  á fram- og afturfótum er hundurinn alspora.
Loppur: Sjá framfætur.

HREYFINGAR: 

Hreyfingar eru vasklegar, léttar og fjörlegar. Spyrna afturfóta er kröftug. Yfirferð er drjúg.

FELDUR: 

Feldur er myndaður úr þeli og yfirhárum og hrindir vel frá sér vætu.

HÁRAFAR:  Hárafar er með tvennu móti:

Snöggt hárafar: Ytri hár eru í meðallagi löng og frekar gróf en þelið þétt og mjúkt. Hár á trýni, kolli, eyrum og  framan á fótleggjum er þétt og sneggra, en lengra á hnakka, á hálsi, herðakambi, bringu og  aftan á lærum. Skott er þétthært og loðið og lengd skotthára er í samræmi við hárafar hundsins.

Langt hárafar (lubbar): Ytri hár eru lengri en í meðallagi og frekar gróf en þelið þétt og mjúkt. Hár á trýni, kolli, eyrum og framan á fótleggjum er þétt og sneggra, en mun lengra á hnakka, við eyru, á  hálsi, herðakambi, bringu, aftan á framfótum (fanir) og aftan á lærum. Skott er þétthært og loðið og lengd skotthára í samræmi við hárafar hundsins.

LITIR:  Litbrigði eru með ýmsu móti, en þó skal einn aðallitur ávallt vera ríkjandi.

Aðallitir eru:
– 
Gulur í ýmsum blæbrigðum, allt frá ljósgulum lit til dökkrauðguls litar.
– Leirhvítur.
– Mórauður.
– Grár.
– Svartur.

Hvítt fylgir alltaf aðallit, en algengir hvítir flekkir eru: Blesa (blesótt), önnur kinn eða helmingur höfuðs (skjömbótt), kragi (strútótt), á bringu, í skottenda (tíra/týra), í kringum klær (sporótt), upp eftir löpp (löppótt) og  hátt upp eftir löpp (leistótt).

Mjög algengt er að aðalliturinn sé ljósari, jafnvel hvítur, frá hálsi undir kvið og aftur á skottenda (botnótt).
Oft fylgir kolóttur blær á trýni gulum og gráum feldlit og jafnvel svört hár og hárendar (kolhært).
Svörtum aðallit fylgja alltaf einhverjir af ofangreindum hvítum flekkjum ásamt gulum lit á fótleggjum, kinnum og yfir augum (þrílitt).
Mikið flekkótt er leyfilegt, en ekki er æskilegt að hvítt sé ríkjandi.

HÆÐ : 

Æskileg hæð hunda er 46 sm og tíka 42 sm.

GALLAR : 

Öll frávik frá ofangreindri lýsingu eru gallar sem skulu dæmdir í réttu hlutfalli við frávikið frá ræktunarmarkmiðinu.
– Svört kápa (kápótt) með gulum og gráum aðallit.

ALVARLEGIR GALLAR:

-Engir sporar.
– Gul augu.
– Kringlótt, útstæð augu.

Hundur með augljósa líkams- eða hegðunargalla fær einkunnina 0.

ATHUGIÐ: 

Bæði eistu skulu vera af eðlilegri stærð og rétt staðsett í pungnum.

|