Samfélagið viðurkenni hunda

 Viðtal við Herdísi Hallmarsdóttur tilvonandi formann HRFÍ í Mbl í gær 20. maí

Varaformaður Hundaræktendafélags Íslands telur tímabært að endurskoða takmarkanir á hundahaldi á Íslandi Eru hluti af fjölskyldunni Mun strangari reglur hér en á Norðurlöndunum

Herdís Hallmarsdóttir, varaformaður Hundaræktendafélags Íslands, kallar eftir réttarbótum fyrir hundaeigendur. Telur hún að allt of strangar reglur séu í gildi um hundahald á Íslandi og að almenna reglan ætti að vera sú að hundar væru leyfðir hvarvetna nema sérstök ástæða réttlæti takmarkanir. „Mér finnst að samfélagið eigi að viðurkenna að hundurinn er hluti af fjölskyldunni. Þeir eigi því að vera leyfðir nema sérstök rök standi til annars. Það á að þurfa ríka ástæðu til þess að hundum sé meinaður aðgangur,“ segir Herdís. Hún nefnir að ástæða geti verið til þess að banna hunda í skólum og leikskólum en öðru gegni um nær allar aðrar opinberar byggingar og vinnustaði.

Hún segir reglur um hundahald á Íslandi mun strangari en á öðrum löndum á Norðurlöndum. Hér þarf t.a.m. samþykki 2/3 hluta íbúa í fjölbýlishúsum fyrir hundahaldi auk þess sem hundar eru ekki leyfðir í almenningsfarartækjum. „Það er ekkert sem bannar aðgang hunda í fylgd eigenda sinna í almenningsfarartækjum annars staðar á Norðurlöndunum. Hvorki í lestum né í strætó,“ segir Herdís.

Þá nefnir hún einnig að hundum sé ekki heimilt að fara í fylgd eigenda inn í íþróttamannvirki, á veitingastaði og hótel. „Gisting á hótelum á Íslandi er bundin afar miklum takmörkunum. Það er í engu samhengi við það sem þekkist erlendis. Þar þykir ekkert tiltökumál að ferðast með hund hvort sem það er á hótelum, tjaldsvæðum eða í bændagistingu. Hvarvetna er úrval gististaða sem hægt er að velja um. Í þessum tilfellum borgar fólk yfirleitt sérstakt hreinsigjald en sá möguleiki er ekki fyrir hendi hér á landi,“ segir Herdís. Hún telur að breytingar verði eingöngu ef samfélagið viðurkennir að hundar séu hluti af fjölskyldunni. Slíku sjónarmiði þurfi að sýna umburðarlyndi. „Ég hef sótt hundasýningar í íþróttamannvirki sem og önnur rými erlendis án þess að það þyki tiltökumál,“ segir hún.

 Í takt við nútímann

Aðspurð segir hún erfitt að ímynda sér hvers vegna meiri andstaða er við hundahald á Íslandi en annars staðar á Norðurlöndunum.

„Ég tel að þetta eigi sér sögulegar skýringar sem eru tengdar því hundabanni sem hér hefur víða ríkt. Ekki má gleyma því að hundurinn hefur þjónað manninum í margar aldir og verið ræktaður í þeim tilgangi í hundruð ára. Kominn er tími til þess að endurskoða reglur um takmörkun og færa okkur í takt við nútímann,“ segir Herdís.

Viðar Guðjónsson vidar@mbl.is