Jákvæð áhrif hunda á fólk

Jórunn Sörensen:

Fyrirlestur Line Sandstedt

Line Sandstedt hélt fyrirlestur 26. október í framhaldi af námskeiði sem hún hélt hér. Fyrirlesturinn kallaði hún: Some of the positive effects dogs have on humans. Í fyrirlestrinum lýsti hún hluta þeirrar fjölbreyttu vinnu sem fer fram á vegum: Anthrozoologi Sentret í Noregi  þar sem Line starfar.

Line sem er norskur hundaþjálfari byrjaði á að kynna sjálfa sig og sína hunda sem hún vinnur með sem hjálparhunda á ýmsum sviðum. Síðan kynnti hún Anthrozoologi Sentret sem rekur fjölþætta starfsemi á sviði samskipta dýra og manna og er leiðandi í slíku starfi í Noregi. Þar er starfrækt bæði þjálfun og rannsóknir.

Skólahundar – Line sagði frá skólahundunum sem m.s. eru notaðir að aðstoða börn við lestur; börnin lesa fyrir hundana og útskýra orð fyrir þeim. Einnig eru hundar notaðir til þess að aðstoða börn sem verða fyrir einelti því rannsóknir sýna að börn sem eiga dýr eiga auðveldara með samskipti við önnur börn og eru vinsælli.

Tengsla manna við náttúruna – Line lýsti því hvernig hundar eru hluti af því að tengja fólk við náttúruna. Einnig ræddi hún að svo lengi sem maðurinn hefur verið til hefur hann heillast af ungviði og hvað er krúttlegra en lítill hvolpur. Í framhaldi af því hefur maðurinn skapað hunda sem líta alla ævi út eins og lítill hvolpur. Og á tjaldinu birtust ómótstæðilegar myndir af ýmsum þeim  dekurhundum sem við eigum.

Oxytocin – Að sjálfsögðu kom Line inn á hina jákvæðu virkni hormónsins oxytocin. Hvernig snerting, gælur og strokur framkalla þetta hormón sem vekur svo mikla vellíðan. Hún benti á að þar sem ekki er alltaf hægt að vera að klappa manneskju er gott að hafa hund við hendina. Rannsóknir sýna að oxytocin verður virkt bæði í manneskjunnni og hundinum við snertingu og strokur.

Rannsóknir á áhrifum hunda á börn – Rannsóknir á börnum sýna að börn sem alast upp með dýrum eiga auðveldara með samskipti og sýna meiri samhygð. Þau hafa betri sjálfsmynd og eiga auðveldara með sjálfsstjórn. Einnig leita börn til dýrsins á heimilinu þegar eitthvað bjátar á og foreldri eða önnur manneskja sem barnið treystir, er ekki nálæg. Sérstakar rannsóknir hafa verið gerðar á þeirri miklu hjálp sem hundur getur veitt barni með einhverfu. Meðal þess sem börn með einhverfu áttu auðveldara með, ef þau voru með hund, var að tala og taka þátt í athöfnum.

Hundurinn í fjölskyldunni – Hundurinn er langvinsælasta gæludýrið og 80% þeirra sem eiga hund líta á hann sem hluta af fjölskyldunni.

Hundur sem hjálp í veikindum og endurhæfingu – Allar rannsóknir sýna hve gífurleg hjálp hundurinn er þeim sem eiga við langvarandi veikindi að stríða. Line tók dæmi um endurhæfingu vegna hjartaáfalls og þegar um andleg veikindi er að ræða. Line sagði frá fjölmörgum dæmum þar sem líf fólks lengist ef það á hund og það sem mest er um vert er, að lífsgæði þess aukast til muna. Jafnvel fólk sem á erfitt með að hugsa um sig sjálft verður til þess færara ef það þarf einnig að hugsa um gæludýr – bera ábyrgð á annarri lifandi veru.

Hundar og gamalmenni – Það er óumdeilt hve góð áhrif hundar hafa á gamalt fólk. Það gengur meira og hraðar; þarf sjaldnar að fara til læknis; minni hætta á elliglöpum; hugsar betur um sjálft sig og fær fleiri heimsóknir frá barnabörnum.

Hundar í athvörfum fyrir konur sem hafa orðið fyrir ofbeldi – Til slíkra athvarfa leita oft konur sem aldrei hafa vanist því að hundur sé á heimilum. Line lýsti því hvernig þær venjast hundinum og læra að meta návist hans. Það var einstaklega áhugavert að heyra hve góð áhrif hundar í slíkum athvörfum hafa á börnin. Vera hundsins á staðnum varð til þess að auka samskipti meðal barnanna. Börnin hlökkuðu til að fá hundinn í heimsókn og þau sögðu honum ýmislegt sem þau sögðu ekki öðrum. Í svona athvörf koma einnig börn sem eru haldin ofsahræðslu við hunda. Line lýsti því hvernig börnunum er hjálpað til þess að læknast af þessum ótta.

 

Það er ómetanlegt fyrir okkur sem eigum hunda að fá svona frábæran fyrirlestur. Auk þess er alltaf gaman að hittast og njóta slíkrar fræðslu saman um okkar dásamlega vin og félaga – hundinn. Þökk sé Hundalífi.