Nala styttir veiku fólki stundir

Fréttatíminn Sólrún Lilja Ragnarsdóttir:

Þórdís Björg fer reglulega með tíkina sína í heimsókn á líknardeildina, sem heimsóknarvinur hjá Rauða krossinum

Við tökum hundana með okkur og spjöllum við fólk á meðan það klappar þeim og gefur nammi,“ segir Þórdís Björg sem er heimsóknarvinur með tíkina sína Nölu hjá Rauða krossinum, en áður fór hundurinn Charlie með henni. Bæði eru þau af gerðinni Standard Poodle.

Að vera heimsóknarvinur felur í sér að fara í heimsóknir til einstaklinga, oft þeirra sem eru mikið einir eða félagslega einangraðir, og stofnanir eins og elliheimili og líknardeildina í Kópavogi, en Þórdís fer þangað. „Ég er búin að fara á minn stað í átta ár og hitti oft deyjandi fólk. Það gefur því ótrúlega mikið að fá okkur í heimsókn. Þetta er líka mjög gefandi fyrir mig. Það er gott að geta glatt veika einstaklinga og létt þeim lund.“

Til að verða fullgildur heimsóknarvinur þurfti Þórdís að sækja tvö námskeið og hundurinn að fara í skapgerðarmat. En mikilvægt er að hann búi yfir góðri skapgerð og þoli að láta ókunnuga faðma sig og klappa, sem Nala gerir svo sannarlega. En Þórdís segir hana spennta fyrir verkefninu og taki það mjög alvarlega.

„Þegar við förum í heimsóknir þá fær hún rauðan klút um hálsinn, merktan Rauða krossinum. Og um leið og maður setur klútinn á hundinn þá veit hann að hann að fara í vinnuna og hagar sér samkvæmt því. Nala er mikill orkubolti og hún gerir sér grein fyrir því að þegar hún er með klútinn þá verður hún að haga sér á ákveðinn hátt. Hún veit að hún má ekki hlaupa og verður ganga á milli og leyfa fólki að klappa sér.“

Þórdís segir þónokkuð marga hunda taka þátt í verkefninu um allt land og henni finnst sérlega gaman að þetta sé leyft á Íslandi, í ljósi þess að hundar eru gjarnan bannaðir á opinberum stöðum. „Ég hef aldrei hitt einstakling sem er mótfallinn þessu, sem er alveg frábært.“
Allir geta orðið heimsóknarvinir hjá Rauða krossinum með því að skrá sig á raudikrossinn.is

http://www.frettatiminn.is/nala-styttir-veiku-folki-stundir/

nala4     nala3

Hundalífspósturinn fagnar umfjöllun fjölmiðla um hunda eins og Nölu sem vinna svona frábært starf. Svona umfjöllun sýnir landsmönnum jákvætt hundahald sem við þrufum að vekja athygli á hvar sem við komum því við.

Þórdís segir það að vera með heimsóknarhund eitt það skemmtilegasta sem hún hefur gert á sínum 20 ára hundaferli. En Þórdís æfir einnig hundafimi með Nölu og þær náðu þeim frábæra árangri að Nala var annar af tveimur stigahæstu hundum hjá Íþróttadeild HRFÍ.

nala 1          Nala í hundafimi

nala2    Nala í beituhlaupi