Soffía K. Kwaszenko:
Í vetur ákvað ég að flytja inn hund frá Bretlandi. Ég fór út í byrjun mars til að skoða hundinn, kom heim og gekk frá umsókn um innflutning til MAST og fékk staðfestingu um hæl. Ég greiddi 30.000 kr. staðfestingargjald sem átti að dekka skoðun dýralæknis á hundinum við komuna til landsins. Heimildin til innflutnings kom svo í kjölfarið. Ég pantaði pláss í einangrun og svo flug fyrir hundinn heim, hvoru tveggja þarf að gera með fyrirvara til að tryggja pláss. Það er takmarkað pláss í flugvélum fyrir dýr þannig að maður þarf að panta og ganga frá flugi með mjög góðum fyrirvara, og það sama gildir um einangrunina. Enn fremur þurfti að ganga frá flugi og gistingu fyrir mig svo allt gengi upp. Innflutningsheimildin er síðan send til ræktandans úti á MAST-fylgiblöðum varðandi kröfur um bólusetningar frá MAST. Svo hefst ferillinn erlendis hjá ræktandanum að uppfylla þessar kröfur fyrir innflutninginn, viðeigandi bólusetningar gerðar, blóðsýni tekin og annað sem til þarf.
Fjórum vikur fyrir væntanlega komu hundsins hófst verkfall BHM. Þá heyri ég sögusagnir um að hundar sem voru á leiðinni til landsins var gert að snúa við því þeir myndu ekki fá að koma inn í landið. Ég hafði strax samband við einangrunarstöðina Hafnir til að athuga hvernig málin væru.
Í samtali við eiganda einangrunarstöðvarinnar sagðist hann ætla að sækja um undanþágu, fyrir næsta holl þar sem hann er með dýralækni á sínum vegum sem tekur á móti og sinnir dýrunum á meðan á einangrun stendur, sá hinn sami tekur blóð og saursýni og sendir þau í rannsókn og fylgist með heilsufari dýranna á meðan dvölinni stendur. MAST hafnaði undanþágubeiðninni án þess að færa rök fyrir neituninni. Ég hafði þá samband við MAST því ég hafði miklar áhyggjur af því sem væri framundan: Mér var sagt að þau vissu lítið meira en ég en að ferillinn færi hratt af stað um leið og verkfallið leysist, maður yrði bara að vera tilbúinn. Svo líður tíminn, viðræður hafnar, þeim slitið svo hefjast þær aftur. Nú er komið að því að senda inn pappírana því þeim þarf að skila inn 5-10 dögum fyrir innflutning.
Vottorðin eru send í tölvupósti eða faxi svo hægt sé að senda síðan áfram til MAST til að fá endanlega heimild, þetta þarf að gera innan fimm sólarhringa frá komu dýrsins. Þetta sendum við inn í þeirri trú að verkfallið leystist fyrir tilsettan dag sem var 27. maí. Við áttum flug út 22. maí enda þarf þennan tíma til að undirbúa hundinn fyrir ferðalagið. Eftir að við vorum komin út, fengum við svar frá MAST um að ekki væri hægt að afgreiða heimildina vegna verkfalls hjá BHM. Engu að síður vorum við vongóð um að þetta myndi ganga upp þar sem viðræður voru í gangi þegar við fórum og við vildum eyða góðum stundum með hundinum áður en hann færi í einangrun. En allt fór fyrir bí, verkfallið harðnaði og viðræðum slitið og við komum hundlaus heim. Svo skilst mér núna að það þurfi að endurtaka allt ferlið fyrir næstu inntöku dýra sem verður núna í júní. Þ.e.a.s. ef að einangrunarstöðin sem hefur tekjur einungis af innflutningi hunda og katta hefur þetta af. Nú þegar hefur orðið gífurlegt tekjutap hjá þeim vegna þess að þetta eina starf dýralæknis frá MAST sem felur í sér að koma einu sinni í mánuði til að “taka á móti” dýrum, er í verkfalli. Þetta eina starf (sem að mínu mati er algjörlega óþarft) hefur valdið fjölda fólks svo og fyrirtækjum miklu tjóni. Hvað er í gangi spyr ég? Treystir MAST ekki þeim aðilum sem uppfylla allar kröfur þeirra til að reka einangrunarstöð og eru með dýralækni starfandi, viðurkenndum af Dýralæknafélagi Íslands og MAST, til að sjá um einangrunina frá komu til landsins til útskriftar? Afhverju þarf eitt starf hjá MAST að valda öllu þessu tjóni? MAST, sem er ríkisstofnun, gerir allar kröfur og fríar sig af allri ábyrgð. Hvernig er það hægt? Það er ekki góð meðferð að láta dýrin fara í blóðprufur, sprautur, sýnatökur, aftur og aftur – að nauðsynjalausu.
Ég var þess heiðurs aðnjótandi í fyrra að fara með hvolp til Bretlands. Þvílíkur munur á ferilinum. Svo ekki sé minnst á móttökuna erlendis.
Hversu langt á kúgun á hendur gæludýraeigendum á Íslandi að ganga, höfum við engan rétt?