Ferðasaga Sifjar og Sunnu 2. hluti

Sif Traustadóttir, dýralæknir:

  1. Konungsríkin þrjú, Danmörk, Noregur og Svíþjóð

Þegar hér er komið sögu vorum við Sunna loksins lentar á flugvellinum í Kaupmannahöfn. Sunna var fegin að komast út úr búrinu og við sluppum án vandræða í gegnum tollafgreiðsluna á vellinum. Vinkona mín sótti okkur á flugvöllinn og við fórum heim til fjölskyldunnar sem myndi passa Sunnu næstu þrjár vikur þar til hún losnaði úr heimasóttkví. Sunna var strax ánægð með nýju vini sína og grasið græna í garðinum hinum megin við hafið. Næsta dag kom danskur dýralæknir í heimavitjun og bólusetti hana við hundaæði og hófst þá biðin en hún varð að bíða í 21 dag eftir að losna úr þessarri heimasóttkví.

Ég hafði samið við föður minn um að við færum saman í stutt ferðalag á nýja húsbílnum á meðan Sunna væri í sóttkvínni. Ég þurfti að læra á bílinn, hvernig væri að keyra hann og hvernig allt virkar en pabbi er alvanur húsbílum og gat kennt mér allt það helsta. Á móti myndi ég hjálpa honum í söluferð í Noregi, við myndum skiptast á að keyra um alla mjóu firðina þar og heimsækja bæði viðskiptavini og aðra vini. Það er sagt að flökkueðli sé arfgengt, að fólk sem hefur genið DRD4 (kallað the wanderlust gene á ensku) sé ákafara en aðrir í ferðalög og ævintýri. Ég hlýt að hafa þetta gen frá báðum foreldrum mínum, þar sem þau eru bæði sólgin í ferðalög og breytingar. Síðastliðin tvö ár hefur mamma mín búið á Íslandi, í Búlgaríu og á Spáni og pabbi eyðir að minnsta kosti hálfu árinu í ferðalög á vegum fyrirtæksins sem hann á og rekur. Þetta ferðalag reyndist hið skemmtilegasta, við heimsóttum gamla vini pabba, gistum á ægifögrum tjaldstæðum við norska firði og fórum í heimsóknir í fiskvinnslufyrirtæki í Noregi. Þegar við vorum búin að þræða alla suðurströnd Noregs og komin upp til Ålesund skildu leiðir og pabbi fór í flug heim til Íslands en ég fór ein á bílnum til baka til Kaupmannahafnar.

Við Trollveggen í Noregi

Það var sérstök tilfinning og mikil tilhlökkun að hefja loksins ferðalagið ein í húsbílnum. Ég keyrði frá Ålesund til Oslóar og var svo heppin að hitta akkúrat á þjóðhátíðardag norðmanna, 17. mai. Það var skemmtilegt að rölta um miðbæinn og sjá allt fólkið sem var klætt upp í þjóðbúninga að norskum sið. Næsta dag hitti ég norskan vin minn og kollega í smurbrauðshlaðborði á fínasta hóteli bæjarins, Grand Hotel, þar sem friðarverðlaun Nóbels eru veitt árlega. Það var enn ansi kalt í Noregi og snjór við veginn sumsstaðar á leiðinni þannig að ég var farin að hlakka til að komast suður á bóginn. Stefnan var því sett á Danmörku og endurfundi við Sunnu mína sem var enn í einangrun hjá vinafólkinu. Það voru miklir fagnaðarfundir þegar ég kom til baka en við máttum enn bíða í rúma viku eftir að komast af stað. Við nutum þess að eyða tíma með vinum okkar og loksins þegar einangrunartíminn notuðum við tækifærið til að skoða okkur um í Kaupmannahöfn. Þar sem ég var í námi í Kaupmannahöfn og bjó þar í 5 ár þá hef ég alltaf sterkar taugar til borgarinnar. Það var gaman að geta farið með Sunnu í lestina niður í bæ og hún var ánægð með að smakka lífræna danska pylsu við einn pylsuvagninn þar.

Sunna mátar rúmið hjá Snus 1

Eftir að við kvöddum vini okkar í Lynge var ferðinni haldið vestur eftir Sjálandi og fórum meðal annars í heimsókn í höfuðstöðvar dönsku matvælastofnunarinnar þar sem við heimsóttum vini og kollega og heilsuðum upp á fólkið sem skrifaði undir undanþáguna til að Sunna gæti komist af stað. Það var aldeilis gaman fyrir þau að sjá í eigin persónu litla ferðalanginn. Við heimsóttum kollega sem eiga kisu sem vanalega samþykkir enga ferfætta gesti en hún var nokkuð róleg og þær áttu vinaleg samskipti, öllum að óvörum. Það kom þó svipur á kisu þegar Sunna gerði sér lítið fyrir og mátaði rúmið hennar! Samkvæmt ábendingum frá þessu góða fólki fórum við næst og skoðuðum Egeskov kastala á Fjóni. Þessi kastali var sá fyrsti af mörgum sem við sáum í ár. Sunna mátti koma inn á lóðina og skoða allt þar en ekki fara inn í kastalann sjálfan og mátti dúsa í húsbílnum á meðan ég skrapp þar inn. Þetta var góður dagur og hægt að mæla með. Næst á dagskrá var Odense, fallegur bær og þar sá ég mjög eftirminnilegt safn um rithöfundinn H.C. Andersen en hann var líka með ferðagenið og ferðaðist víða um ævina, fór í 30 utanlandsferðir og eyddi alls 9 árum utan Danmerkur á þessum ferðalögum.

Frá Fjóni lá leiðin svo til Jótlands. Við fórum til Århus og kíktum á gamla bæinn þar sem er safn svipað og Árbæjarsafn þar sem hægt er að skoða gömul hús að innan og utan. Sunna fékk að fara með þar líka og beið þolinmóð fyrir utan ef ég skrapp inn til að kíkja á einhver hús að innan. Hún var alveg til í að bíða í húsbílnum og leggja sig á nýju, fínu heilsudýnuna sína á meðan ég kíkti á Aros listasafnið og grasagarðinn, enda finnst henni ekki gaman að fara í langa göngutúra þegar það er rigning og kalt úti.

Skagen sommeraften

Skagen var næst á dagskrá og það er ógleymanlegur staður. Það er engu líkt að standa á ystu nöf skagen og horfa á öldur Atlantshafsins og Eystrasaltsins brjótast saman úr sitthvorri áttinni. Birtan þarna er stórkostleg og það undrar mig ekki að listamenn hafi í gegnum tíðina safnast þarna saman til að mála meistaraverk og njóta samvista. Gamansöm færsla og áskorun vinkonu okkar á facebook varð að skemmtilegri kvöldstund með myndavél og þrífót á ströndinni. Uppáhalds söfnin mín eru heimili rithöfunda og listamanna sem hafa verið varðveitt og á Skagen eru tvö svoleiðis söfn sem ég naut þess að skoða, hús Michaels og Önnu Ancher og hús Holgers Drachmann. Á Skagens museum eru einnig mörg merk málverk eftir hina bóhemsku Skagen málara. Ég mæli með heimsókn til Skagen fyrir þá sem hafa áhuga á listum, útivist og náttúrufegurð. Á Skagen eru líka fín tjaldstæði sem eru í göngufæri frá bænum og okkar stæði bauð upp á ókeypis hundanammi og kúkapoka fyrir ferfætta gesti og eigendur þeirra.

Næst var ferðinni heitið til Berlínar en meira um það í næsta pistli.

1. hluti ferðalags Sifjar og Sunnu á Hundalífspóstinum:

http://hundalifspostur.is/2015/09/10/sif-og-sunna-a-ferdalagi-island-kvatt/