Brynja Tomer
Ég hef í nokkur ár velt því fyrir mér hvers vegna HRFÍ stækkar jafn hægt og raun ber vitni. Þá á ég við að mér finnst félagsmönnum fjölga óskaplega hægt.
HRFÍ er hagsmunafélag allra hundaeigenda, að minnsta kosti ef marka má merki félagsins (lógó) og á hverju ári eru skráðir yfir 1.000 nýir hundar í ættbók. Þá eru ótaldir allir óættbókafærðu hundarnir á Íslandi. Á hinn bóginn höfum við, félagsmenn, í mörg ár verið í kringum tvö þúsundin þótt okkur ætti með réttu að fjölga um einhver hundruð á hverju ári.
Ég viðurkenni að ég er ekkert sérstaklega flink í stærðfræði, en í mínum huga gengur dæmið ekki upp þar sem hundaeigendum fjölgar í sífellu og fjöldi félagsmanna stendur í stað.
Nú, þegar HRFÍ er 45 ára, finnst mér að við ættum að vera um 20 þúsund í félaginu, ekki um tvö þúsund. Mig grunar að við séum ekki nægilega aðlaðandi félag, ekki nógu öflugt hagsmunafélag og starfsemin sé ekki það fjölbreytl að íslenskir hundaeigendur sjái ástæðu til að „vera memm“ og borga fyrir það 7.500 krónur á ári ef þeir hafa ekki áhuga á að rækta hunda eða taka þátt í hundasýningum og veiðiprófum.
Það er í stuttu máli niðurstaðan úr samtölum við fjölmarga hundaeigendur, en ég er svo lánsöm að eiga á hverjum degi samskipti við mikinn fjölda þeirra, bæði í gegnum vinnu mína hjá VÍS og sjálfboðin störf innan félagsins og utan.
HRFÍ virðist ekki hafa náð að festa sig í sessi sem alvöru hagsmunafélag og vettvangur þeirra sem eiga hunda og njóta lífsins með þeim. Okkur hættir til að skoða frekar á okkur skrautfjaðrirnar en horfa inn á við og finna tækifæri til vaxtar. Innan félagsins er vissulega fjölbreytt starfsemi og þjónusta, en hugsanlega þurfum við að kynna betur það sem er í boði og vera duglegri að bjóða til okkar þeim sem ekki eru félagsmenn, t.d. á fyrirlestra, námskeið, próf og þessháttar.
Nú er ég þeirrar náttúru að fá ótal hugmyndir og er nægilega hvatvís til að fylgja mörgum þeirra eftir. Sumar reynast vondar og aðrar góðar, eins og gengur. Auk þess sem almennt kynningarstarf er nauðsynlegt, dettur mér í hug að:
- Bjóða ræktendum að skrá nýja hvolpakaupendur, sem ekki eru í félaginu, í HRFÍ, þeim að kostnaðarlausu fyrsta árið.
- Hundaskóli HRFÍ bjóði reglulega uppá ókeypis fræðslustund fyrir nýja hundaeigendur og/eða þá sem hafa hug á að fá sér hund.
- Lækka félagsgjöld.
Auk þess væri tilvalið að setja upp viðburðadagatal á áberandi stað á heimasíðu félagsins og FB-síðunni, þar sem auglýstir eru allir viðburðir félagsins, þannig að upplýsingar um starfsemina sé aðgengilegri en nú er.
Mig langar að óska eftir hugmyndum frá hundaeigendum um leiðir til að efla félagið og fjölga félagsmönnum. Þeir sem luma á hugmyndum geta annað hvort sent mér línu í gegnum Facebook eða netfangið mitt, brynjatomer@gmail.com eða þá sent stjórn félagsins hugmyndir á netfangið stjorn@hrfi.is og ég er sannfærð um að hugmyndum verður tekið fagnandi.
Gleðilegt sumar!