Hundalíf með Theobald

Jórunn Sörensen

 

BÓKARKYNNING

HUNDALÍF – með Theobald

eftir Þráin Bertelsson

Árið um kring, í öllum veðrum, ganga þeir saman vinirnir Þráinn og Theobald. Stundum er taumur á milli þeirra en oftast eru þeir frjálsir á ferð sinni og það þykir þeim báðum betra.

Bókin HUNDALÍF – með Theobald er einstök lýsing á sambúð manns og hunds þar sem þeir mætast á jafnréttisgrunni – að minnsta kosti er það bjargföst skoðun Theobalds. Heima og heiman ræða þeir saman um lífið og tilveruna og einnig um hversdagslega hluti eins og hvort eigi að eigi að togast á um dót núna eða hvað sé í matinn. Til samræðna nota þeir ýmsar aðferðir eins og táknmál, hugsanaflutning og beina orðræðu. Allt sem við sem eigum hund þekkjum svo vel.

Á gönguferðum sínum upplifa þeir kyrrð og jafnvægi  – ekki síst þegar þeir ferðast um svæði þar sem náttúran ríkir og þeir eru einir. Þeir njóta augnabliksins –  sem allt í einu fékk nafnið „núvitund“ sem er ekki flóknara en þetta.

Þráinn er raunsær í skrifum sínum og sendir samfélaginu tóninn eins og þegar hann segir við Theobald sem í þvermóðskukasti neitar að koma inn í bílinn að gönguferð lokinni: Má ég benda þér á að ég þarf að eiga og reka bíl með umtalsverðum kostnaði og fyrirhöfn til að geta ekið þér í gönguferðir og síðan heim aftur … Theobald gerir þetta líka þegar hann bendir Þráni vini sínum á „áfangaheimili sem dvergar reka fyrir huldufólkshunda sem hafa misstigið sig í lífinu, kúkað að staðaldri vitlausum megin við útidyrnar, bitið einhvern til blóðs til að ná af honum spýtu eða trjágrein …“.

Eins og þau okkar sem hafa lesið bækur Þráins Bertelssonar vita er húmor hans beittur eins og þegar hann segir göngustíginn vera „hálli en nokkur stjórnmálamaður“ og eins þegar hann upplifir hve ljúft það er að vera úti í náttúrunni laus við „uppljómuð auglýsingaskilti“.

Í kaflanum „Gamansöm náttúra eða tröll að grínast?“ er góð lýsing á hundum sem við sem eigum hund þekkjum vel – hundinn sem „vaknar glaður til hvers nýs dags“ eins og Theobald.

Vinirnir upplifa og miðla reynslu sinni hvor á sinn hátt. Þráinn notar Mannafacebook þegar heim er komið en Theobald les, lækar og bætir við skilaboðum í Hundafacebook jafnóðum í gönguferðunum.

Ég á von á að við, eldri lesendur bókarinnar, upplifum ýmislegt í bókinni á annan hátt en þeir sem enn eru ungir, til dæmis eina af mörgum heimspekilegum samræðum félaganna þegar Theobald spyr vin sinn: Hvað er langt þangað til aldrei kemur aftur?

Bókin HUNDALÍF með Theobald er lýsing á þeirri einlægni sem ríkir á milli hunds og manns. Væntumþykja mannsins til dýrsins lýsir af hverri síðu. Theobald er sannkallað ævindýr. Yndisleg bók sem við, Jórunn og Spói, mælum sannarlega með.