Flugbjörgunarsveitin keypti sporhund 1954

Grein sem birtist í Morgunblaðinu 1954. Þetta er líklega fyrsti sporhundinn sem keyptur var til landsins:

Flugbjörgunarsveitin eignast stóran úrvals sporhund

Í gærkvöldi þegar flugvél Loftleiða, Hekla, kom vestan frá New York, var „meðal farþega” stór amerískur svartur og brúnn sporhundur, sem Flugbjörgunarsveitin hefur fest kaup á vestur í Bandaríkjunum. — Er þetta sagður af kunnáttumönnum, vera úrvals sporhundur, einn af aðeins- þrem þúsundum. Hyggst Flugbjörgunarsveitin nota hundinn er leita þarf að týndum mönnum í byggð eða í óbyggðum.

ÞAÐ HEFUR VANTAÐ SPORHUND

Hundurinn er af blóðhundakyni. Miklu er talið skipta í leit að týndu fólki, að hafa tiltækan góðan sporhund. Hefur mjög um það verið rætt í blöðunum að nauðsyn bæri til að hér væri jafnan til taks sporhundur ef það mætti verða til þess að forða manntjóni. Hafa ýmsir menn og fyrirtæki sýnt málinu góðan hug og stuðning. — Það er ónefndur maður, sem gaf Flugbjörgunarsveitinni andvirði sporhundsins sem er um 9000 krónur. Aðrir hafa svo lagt fram annan kostnað vegna hundsins. T. d. gáfu Loftleiðir 200 dollara fragt af hundinum.

ÞUNGUR Á FÓÐRUM

Hundurinn, sem vegur um 100 pund, er mjög þungur á fóðrum og þarf að því er Flugbjörgunarsveitin hefur fengið tjáð að vestan, milli 15—20 krónur á dag fyrir mat. Þarf Flugbjörgunarsveitin því mikið fé til að fóðra þennan fallega hund.

AF BEZTA KYNI

Það var lögreglustjórinn í New Hampshire í Bandaríkjunum sem útvegaði Flugbjörgunarsveitinni hundinn. Er hann öruggtega af bezta sporhundakyni. Hann er þriggja og hálfs árs gamall, og er í mjög góðri þjálfun, sem hófst er hann var 6 mánaða.

HRAUST OG HARÐGER SKEPNA

Sporhundar sem þessi eru aldrei hafðir inni í húsum manna heldur í eigin hundakofum, og er þessi hundur, sem er mjög harðgerður og hraustur ekki óvanur að sofa í kofa sínum í 15 stiga gaddi. Timburverzlunin Völundur hefur gefið efni í kofa. Eins studdi Veiðarfæraverzlunin Geysir kaupin á hundinum. Þess skal getið að Iögreglustjórinn sem útvegaði hundinn, segist geta ábyrgzt að hann sé sauðmeinlaus, svo sem traustir sporhundar eiga að vera.

Flugbjörgunarsveitin mun kappkosta að halda hundinum i sem beztri þjálfun og reyna að forðast að hinir góðu eiginleikar hans sem sporhunds verði eyðilagðir. Munu aðeins einn eða tveir menn í Flugbjörgunarsveitinni annast hundinn. — Ber að þakka stjórn sveitarinnar fyrir að hafa keypt sporhundinn.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 15.  júlí 1954

http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=1294979&pdfView=FitV

(myndin er ekki af hundinum sem greinin fjallar um)