Hundaganga HRFÍ á Laugaveginum

Jórunn Sörensen:

Það var gaman laugardaginn 10. október sl. þegar tugir hunda gengu með eigendum sínum niður Laugaveginn í glampandi sól og með lúðrasveit Skólahljómsveitar Austurbæjarskóla í broddi fylkingar ásamt fánaberum.

Lúðraþyturinn kallaði alla út á götu sem ekki voru þar fyrir og það var sannarlega brosandi áhorfendaskari sem horfði á þennan fríða flokk og tók myndir í gríð og erg. Aldrei hafa svona margar hundamyndir þotið yfir Atlandshafið í gegnum gerfihnetti en bærinn er enn fullur af ferðamönnum.

Gangan endaði í Hljómskálagarðinum þar sem hópurinn dreifðist og fólk og hundar spjölluðu saman um lífið og tilveruna.

Það er einstaklega ánægjulegt að HRFÍ skuli taka aftur upp hundagöngur niður Laugaveginn en þær voru árlegur viðburður um margra ára skeið. Mjög fjölmennar fyrstu árin. Áætlað er að allt að 70 hundar hafi verið í göngunni á laugardaginn – af öllum stærðum og gerðum. En sannarlega hefðu þeir mátt vera miklu fleiri. Reyndar var ýmislegt annað á döfinni hjá félaginu þennan dag, eins og hlýðnipróf og einnig var hundasýning í Garðheimum.