Minningarorð: Jakobína G. Finnbogadóttir

Þau kvöddu í lok árs 2017.  Gunnlaugur Skúlason, Jakobína G. Finnbogadóttir og Ágústína Berg störfuðu öll að málefnum hunda. Hundalífspósturinn birtir hér nokkur minningarbrot um Jakobínu G. Finnbogadóttur.

Jakobína G. Finnbogadóttir fæddist í Reykjavík 6. desember 1928. Hún lést 18. desember sl. Jakobína starfaði í mörg ár á skrifstofu Hundaræktarfélags Íslands fyrst í Skútuvogi og síðar í Skipholtinu.  Jakobína var sérlega glæsileg og tók á móti öllum sem áttu leið um skrifstofu félagsins með brosi og fágaðri framkomu. Eiginmaður Jakobínu var Þórir Kr. Þórðarson, prófessor en hann lést árið 1995. Jakobína og Þórir voru það sem hægt er að kalla velunnarar Hundaræktarfélagsins þau sóttu viðburði s.s. sýningar, fundi og Þórir skrifaði nokkrar greinar í Sám, blað Hundaræktarfélagsins og þýddi “Bæn hundsins” sem margir þekkja. Jakobínu og Þóri kynntist ég í gegnum hundaskólann á Bala þar sem þau sóttu námskeið með hundana sína.  Það var skemmtilegt að vera í návist þeirra hjóna hvort sem það var á hundasamkomum eða á heimili þeirra á Aragötunni.

 

 

Jakobína eða Bíbí eins og flestir kölluðu hana var jarðsunginn frá Neskirkju föstudaginn 29. desember sl. Í minningarorðum prestsins kom greinilega fram hversu stór þáttur hundar voru í lífi Jakobínu. Presturinn var náinn fjölskyldunni og kallaði Jakobínu, Bíbí sagði m.a;

Bíbí var nefnilega óforbetranleg hundakelling og dýravinur hinn mesti. Starfaði lengi í Hundaræktarfélagi Íslands.

Það var helst að hundurinn Hrói sendi manni tóninn ef maður var ekki búinn að sleikja sig upp við hann, nú eða Kósý, Ljúfu eða Tinnu því ferfætlingar voru ekki síður velkomnir en menn.

Þó var þar eitt sem Þórir hafði gert árið áður en hann dó sem létti henni mjög tregann en það var að fá nýjan hund Ljúfu. Ég man að hann ýjaði að þessu við mig áður en hann dó að Ljúfa myndi hjálpa Bíbí í sorginni þegar hann væri dáinn. Þetta voru orð að sönnu.

Og æskuþrótturinn þvarr með árunum, heyrnin bilaði – þó var altalað í fjölskyldunni að Bíbí heyrði það sem hún vildi heyra, – og sjónin sömuleiðis var orðin næstum því engin undir það síðasta. Samt skyldi hún drífa sig út að ganga með hundinn og hitta hinar hundakellurnar í götunni, niðri á Ægissíðu eða í Einarsbúð.

Í lokaorðum prestsins segir: “…og kannski, hver veit – má heyra hundsgá þegar amma Bíbí stígur þangað inn.”

Ég leit í kringum mig í kirkjunni. Hvað fannst fólki eiginlega um það að presturinn ræddi um hundahald og jákvæð áhrif hundalífsins á fólk sem lifði og bjó í miðri Reykjavíkurborg? Og hundgá í himnaríki! Engum virtist brugðið og þegar ég gekk úr kirkju ásamt öðrum kirkjugestum fannst mér ég hafa upplifað einhver tímamót. Nýja tíma þar sem  sjálfsagt verður að tala opinskátt um hunda sem part af okkar fjölskyldulífi jafnvel á viðkvæmum stundum eins og við hinstu kveðju.

Fjölskyldu Jakobínu sendi ég samúðarkveðjur. Það var ánægjulegt að hafa kynnst Jakobínu þessari  óforbetranlegu hundakellingu eins og presturinn sagði. Sem félagi og fyrrverandi formaður Hundaræktarfélags Íslands þakka ég fyrir starfskrafta Jakobínu félaginu til framdráttar

Þórhildur Bjartmarz

Fyrrverandi formaður Hundaræktarfélags Íslands