Frétt frá MAST

Kattafló greinist á Suðurlandi

28.09.2016 Dýraheilbrigði

Kattafló fannst á ketti á Suðurlandi í síðustu viku en það er fyrsta staðfesta greining á þeirri óværu utan höfuðborgarsvæðisins. Kattaflóin er nýr landnemi sem greindist fyrst hér á landi sl. vetur. Kattafló getur valdið bæði dýrum og mönnum miklum óþægindum og jafnvel veikindum.

Dýralæknir hjá Dýralæknaþjónustu Suðurlands tilkynnti Matvælastofnun í síðustu viku um grun um kattafló á köttum á býli í Flóanum. Flær voru sendar til Tilraunastöðvar Háskóla Íslands á Keldum sem staðfesti að um kattafló væri að ræða. Matvælastofnun rannsakar nú hvernig flóin getur hafa borist á býlið og hvort hún leynist á köttum eða hundum sem tengjast býlinu. Jafnframt er í undirbúningi samræmd meðhöndlun á dýrum á býlinu sem flóin greindist á og tengdum heimilum.

Stefna Matvælastofnunar er áfram að uppræta óværuna og hindra að hún nái fótfestu hér á landi. Því er mikilvægt að katta- og hundaeigendur sem og dýralæknar verði vel á varðbergi og sendi Matvælastofnun tilkynningu ef grunur leikur á um flóasmit. Flóin er það stór að auðvelt er að sjá hana með berum augum, en hún hreyfir sig hratt og því getur verið erfitt að koma auga á hana á dýrum með þéttan eða dökkan feld. Oft er auðveldara að sjá saur flónna en hann minnir helst á sandkorn í feldinum. Kláði getur verið mismikill og hjá sumum dýrum alls ekki áberandi. Önnur dýr geta sýnt ofnæmisviðbrögð við flóabitunum og fá sár og skorpur í húðina sem svo geta sýkst og einkennin líkjast þá exemi eða húðsýkingu. Góð leið til að skoða hvort dýrið sé smitað af flóm er að láta það standa á hvítu laki og nota t.d. lúsakamb og kemba í gegn um feldinn.

Kattafló (Ctenocephalides felis) getur lifað á og fjölgað sér bæði í hundum og köttum, nokkuð sem fuglafló getur ekki. Einnig geta gæludýrin þrátt fyrir meðhöndlun endurtekið smitast aftur frá innanhúss umhverfi ef það er ekki þrifið gaumgæfilega samtímis meðhöndluninni.

Hafa skal samband við dýralækni ef dýraeigandi telur líkur á því að dýr sitt sé smitað. Lítið er um fuglafló á þessum árstíma og því töluverðar líkur á að kattafló sé á ferðinni ef flær finnast á hundum og köttum. Ekki skal fara með dýrið á dýralæknastofu nema að höfðu samráði við dýralækni fyrst til að fyrirbyggja frekari útbreiðslu. Einnig ræður Matvælastofnun fólk frá því að nota efni eða vörur (svo sem flóaólar) sem markaðssettar eru gegn fló, á dýrin og  umhverfi þeirra, nema að höfðu samráði við dýralækni.

Ítarefni

Greining á kattafló – frétt Matvælastofnunar frá 12.02.16