Stefanía H. Sigurðardóttir:
Kírópraktik fyrir hunda.
Hubert lenti í óhappi fyrir rúmu ári síðan og hefur átt við meiðsli að stríða af þeim sökum. Meiðsli hans voru í baki og mögulega í vöðum við og undir hrygg að mjöðmum. Nánari greiningu var ekki hægt að fá á þar sem röntgenmyndir sýna ekki skaða á vöðvum eða mjúkum vefjum og MRI skanni ekki tiltækur á þeim tíma til nánari greiningar.
Hubert er snögghærður langhundur en sú tegund er einna mest í hættu við að fá skaða á hrygg vegna brjóskloss í baki en einn af hverjum fjórum þeirra lendir einhvern tíma á lífsleiðinni í slíku skv. stórri könnun sem gerð var í UK. Brjóskið þrýstir á mænu og getur þar af leiðandi haft áhrif á taugar og þannig á hreyfigetu. Nýjustu rannsóknir sýna að með geninu sem veldur dvergvexti á fótum, fylgir sá galli að brjósk í baki missir fyrr þann vökva sem í því er en hjá öðrum tegundum. Því eru langhundar- allar stærðir og feldgerðir, Shih Tzu, Welsh Pembroke Corgi, Bulldog, Franskur Bulldog, Basset hundar, Pug, Pekingese, Lhasa Apso, Beagle og einnig Púðlur í áhættu varðandi brjósklos í hrygg. Aðrir hundar geta einnig fengið brjósklos í háls eða bak en eru ekki í sérstökum áhættuhópi vegna tegundar. Ýmislegt bendir til að hægt sé að greina snögghærða langhunda í sérstakri áhættu með röntgenmynd af baki við 2 ára aldur. Þá er einhver gluggi opinn í skamman tíma þar sem hægt er að meta forstigseinkenni og þar með áhættuna. Norðmenn hafa þegar sett slíka myndatöku sem kröfu hjá sér fyrir ræktun og búast má við að fleiri þjóðir fylgi í kjölfarið.
Ég leitaði til Silju Unnarsdóttur dýralæknis sem einnig er kírópraktor varðandi meðferð á Hubert en hann hafði ekki náð árs aldri áður en óhappið varð. Í fyrsta tíma hjá henni er farið vandlega yfir sjúklinginn, hundinn, frá toppi til táa og metið hvað er hægt og þarf að gera. Í þeim tíma kom meðal annars í ljós að Hubert var frekar stífur í mjaðmagrindinni, eitthvað sem gerist víst nokkuð oft hjá minni hundum sem eru að hoppa upp á afturfætur. Sjálf hef ég farið í tvígang til kirópraktora og fengið bata í bæði skiptin. Ég þekki því gang meðferðarinnar og hika ekki við að nýta hana þyki mér þörf á.
Silja meðhöndlaði Hubert í fyrsta tímanum og hann látinn hvíla sig eftir þann tíma. Hann fékk einnig verkja- og bólgueyðandi lyf sem áttu að hjálpa til við að draga úr bólgum, átti a.ð hvílast og mátti ekki fara í göngur. Hann mátti ekki heldur þegar hann fór að geta hreyft sig og fara í stuttar göngur, hitta aðra hunda. Slík samskipti myndu valda álagi á bakið vegna spennu sem hann setti á það og kryppu sem allir hundar geta sett á sig, m.a. þegar þeir teygja úr sér. Hundar með skaðaðir eða sem eru slasaðir, sýna líka oft varnarviðbrögð þegar þeir mæta einhverjum þeim sem þeir eru óöruggir við, sérlega ef þeir óttast að verða fyrir hnaski. Þó Hubert hafi sýnt að hann verki í hægri hlið, hlífir hann sér á vinstri hlið og innrauðar myndir sem starfsmenn hjá Össuri voru svo elskulegir að taka af Hubert, styða þetta.
Eftir fyrsta tímann var strax mikill árangur sjáanlegur, sérlega í mjöðmum sem sýndu sig í mýkri hreyfingum í þeim. Eftir þriðja tímann, bar ekki á stífleika í mjaðmagrindinni. Ásamt meðhöndluninni hjá Silju sem var nokkuð ör í fyrstu, var Hubert í laser-meðferð hjá Kolbrúnu dýrahjúkrunarkonu og félögum hennar á Dýralæknastofunni í Garðabæ. Laser meðferðin er sársaukalaus og vægari en nudd að því leyti að ljós er notað til að draga úr bólgum, minnka verki, auka blóðflæði og örva gróanda.
Ýmsu þurfti að breyta vegna þessa enda hefur margt áhrif á bata, til dæmis kuldi, hálka, klólengd og holdafar. Til að draga úr að Hubert skrikaði fótur eða rynni til, setti ég dregla og teppi á gólf en hafði áður búið til brekku fyrir hann til að ganga á til að komast út í garð og inn aftur. Ganga í tröppum er ekki góð fyrir bakið og er því einfaldlega bönnuð en brekkur eru í lagi. Engir leikir eru þannig að hann þurfi að taka krappar beygjur eða snúninga og einbeiting var á rólega leiki og æfingar. Þegar hundur er í hvíld, þarf að draga úr mat og nammi og huga að holdafari. Verðlaun og nammi molar verða að vera hæfileg og hrós að koma í staðinn. Klippa þarf klær í hæfilega lengd til að tástaða sé sem réttust ef og meðan hundur nær ekki að slíta þeim sjálfur í hæfilega lengd. Röng tástaða skekkir fótaburð og þar með hreyfingu hundsins en ég hef reynt að passa að þegar Hubert hreyfir sig, hreyfi hann sig rétt og verði ekki þreyttur en þá ber á að hann beiti sér ekki rétt.
Við gerðum styrktaræfingar daglega í langan tíma, ma. til að æfa að Hubert væri meðvitaður um afturendann á sér og hægði á sér. Til þess var hillubera úr Billy hillum skellt á gólfið og með þær síðan hækkaðar hæfilega upp með tímanum en Hubert gekk yfir rimlana. Fyrir styrktaræfingar fyrir „core“ eða kjarna setti ég loftlítinn bolta undir plötu sem Hubert stóð á og hallaði plötuna rólega til. Auk þessa þurfti að teygja á vöðvum í afturfótum og huga að því að vöðvar rýrnuðu ekki af hreyfingarleysi.
Svo fór að Hubert fékk magabólgur eftir um það bil mánaðarnotkun notkun verkjalyfja og lenti inn í meðhöndlun á Dýraspítalanum í Garðabæ vegna þess og jafnaði sig vel af því. Þetta kenndi mér þó að vera vakandi fyrir því að hann gæti verið viðkvæmur í maga og gefa lyf alltaf með mat sé þess kostur.
Þegar Hubert mátti fara að hreyfa sig, var sú hreyfing háð þeim takmörkum að fara rólega og ekki of lengi. Til að halda honum bæði í líkamlegu og andlegu jafnvægi, að verða líka þreyttur án þess að ofgera sér, hófum við að æfa spor. Þar er farið stuttar vegalengdir en nefið notað til að finna hluti í slóð. Þetta er eitthvað það skemmtilegasta sem Hubert gerir og það gerir mína ánægju af sporinu og sporavinnunni jafn skemmtilega.
Nanna Lovísa í Hundar&Kettir.is er snillingur í höndunum og hefur líka komið að meðferðinni á Húbert og hefur sjúkranuddað hann. Það fer eftir því hvernig hann er í skrokknum hvað gert er hvert sinn en hann þarf að hvíla sig eftir nuddið og ég kalla þessa daga hans SPA-daga.
Á netinu má finna upplýsingar um leiki fyrir hunda sem útheimta ekki mikla hreyfingu og ég skoðaði líka hvað annað væri hægt að gera til að hjálpa Hubert. Meðal annars rakst ég á galla með mjúkri spelku í sem dregur úr að Hubert geti sett kryppu á bakið og styður við það. Gallann nota ég til stuðnings þegar vitað er að álag verði á bakið. Ég fékk 250 W giktarperu fyrir Hubert í Glóey en slíkar perur senda frá sér innrautt ljós og töluverðan hita. Rannsóknir í Svíþjóð og Japan hafa sýnt fram á að innrauð ljós eyða bólgum, sýkingum og verkjum. Ég setti peruna upp í ca. 73 cm. hæð en þá er hitinn við gólf 30 gráður, Hubert var fljótur að nýta sér hana og sækir í hlýjuna og hún heldur honum mjúkum. Ekki má horfa beint í innrautt ljós, hvorki menn né hundar en það reyndist ekki vera neitt til að hafa áhyggjur af, Hubert liggur undir ljósinu og hefur það notalegt. Ég fann líka Kineseologi-teygjuplástur til að nota á hesta og hunda á netinu. Þessi plástur er gerður fyrir felddýr og festist við líkamshita. Plásturinn styður við og lyftir hárum upp og eykur þannig blóðflæði á þau svæði sem hann er settur á eftir kúnstarinnar reglum. Plástrunin er styrkt með svokölluðum akkerum, þverplástri án teygju á þá plástra sem eiga að vinna á bólgum. Silja hefur aðstoðað mig við að velja hvernig plásturinn er settur á og hjálpað til við að setja hann á. Ég prófaði þennan plástur á auman hæl og lét hann vera á þá 5 daga sem ber að hafa hann. Fyrsta daginn finnur maður alls konar stingi en eftir það finnur maður ekki fyrir að hafa plásturinn. Ég geri ráð fyrir að hundar finni svipuð einkenni. Gallinn er að það sem Hubert gerir við fyrsta tækifæri eftir að plásturinn er settur á. Hann skellir sér undir stofusófa, setur kryppu á bakið og losar sig þannig við plásturinn. En ég gefst ekki upp, við ætlum að vinna bug á þessum meiðslum og Hubert er nú „í viðhaldi“ hjá Silju. Eins og myndirnar bera með sér, elskar Hubert meðferðina hjá Silju, telur hana mikinn hundavin og sætir færis á að sleikja hana í framan eins og hans er háttur við þá sem hann vill vera góður við.
Að endingu langar mig að þakka öllum þeim sem hafa hjálpað okkur allt síðasta ár, Silju, Nönnu, Þórhildi og Kollu og félögum í Garðabæ ásamt starfsfólki Össurar ehf.
Hundalífspósturinn þakkar Stefaníu H. Sigurðar fyrir greinina. Vonandi verður Hubert hress og tilbúinn í sporaprófin í vor