Fylgir vorinu segir kirkjuvörður Laugarneskirkju

Þórhildur Bjartmarz:

Við hundaeigendur höfum í gegnum árin þurft að þola það að við séum öll sem eitt sett í einn vandræðahóp þegar vakin er athygli á hundaskít í fjölmiðlum. Ég ákvað fyrir ekki svo löngu síðan að segja mig úr þessum hópi. Ég var orðin hundleið á meðvirkninni í mér. Fá verk í magann, samviskubit og vanlíðan yfir því að einhver skussi út í bæ þrífur ekki upp eftir hundinn sinn.  Eftir að hafa átt hunda í mörg ár ákvað ég að ég get ekki borið ábyrgð á því að einhver hundaeigandi út í bæ brýtur reglur samfélagsins í þessu frekar en aðrar reglur sem við flest reynum að fara eftir.

Þegar snjóa leysir á vorin kemur allskyns sóðaskapur í ljós.  Leiðinda rusl sem fylgir áramótum og allskyns drasl. Á bílastæðum í Heiðmörk má sjá pizzukassa, KFC plastpoka með kjúklingabeinum, nærbuxur, sprautunálar og smokka, rusl sem eyðist ekki eða seint í náttúrunni. Sem betur fer fólk um sem týnir upp dósir og plastflöskur annars væri það viðbót við annað rusl sem liggur á víð og dreif.

DV birti stóra grein sem Sigurður Mikael Jónsson skrifaði um hundaskít á lóð Laugarneskirkju í dymbilvikunni. Greininnni fylgja þrjár stórar myndir af hundaskít! Ekki ein mynd heldur þarf þrjár svo að allir skilji hversu málið er alvarlegt. Eini munurinn á milli þessara mynda er að á einni mynndinni er kirkja. Kannski er það mikilvægast í fréttaumfjölluninni að þetta er fyrir framan kirkju. En samt er kirkjuvörðurinn rólegur yfir þessu og segir „fylgir vorinu“ og virðist fyrirgefa þessum skussa í anda kristinnar trúar svona rétt fyrir páska.

Úrdráttur úr grein DV:

Í liðinni viku þegar snjóa tók að leysa afhjúpuðust ljót leyndarmál hundaeigenda í Laugarneshverfi. Ljóst var að svartir sauðir höfðu látið ógert að hirða upp skítinn eftir fjórfætta förunauta sína á gangi um garðinn við Laugarneskirkju með þeim afleiðingum að við vegfarendum blasti ófögur sjón. Vart var þverfótað á lóðinni fyrir hundaskít. Vakin var athygli á málinu í Facebook-hópi íbúa í Laugarneshverfi á dögunum þar sem einn íbúi kveðst hafa fengið sjokk yfir umgengninni. Sem hundaeiganda finnist honum sjálfum óþolandi að nokkrir svartir sauðir skuli eyðileggja fyrir öðrum.

Það er nefnilega málið við hundaeigendur viljum ekki vaða í hundaskít frekar en þeir sem ekki eiga hunda. Hundaeigendum finnst flestum sóðalegt að hreyfa hundana sína á svæðum eins og lýst er í greininni.

Í grein DV kemur fram að „tiltekinn maður“ sleppi hundi sínum iðulega lausum á umræddri lóð…. Því spyr ég: Hefði ekki verið nær að blaðamaðurinn og jafnvel ljósmyndarinn hefðu viðtal við þennan tiltekna mann? Einfaldlega spurt hann að því hverjum hann ætlaði að hreinsa upp eftir hundinn. DV hefði upplýst lesendur um sökudólginn í stóra hundaskítsmálinu.

DV: Fylgir vorinu segir kirkjuvörður:

Þá kemur fram í máli eins íbúa að tiltekinn maður sleppi hundi sínum iðulega lausum á umræddri lóð við kirkjuna og sitji svo í bílnum sínum á meðan hundurinn gerir stykkin sín. Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum sem ljósmyndari DV tók á svæðinu þá hafa ósáttir íbúar nokkuð til síns máls. Lóðin er víða þakin hundaskít sem sjálfsagt er að krefja ábyrgðarmenn um að hirða upp jafnóðum eftir gæludýr sín.

„Þetta er bara svolítið það sem fylgir vorinu. Maður verður alltaf var við þetta, mismikið þó, þegar snjóa tekur að leysa, og þá er eins og fólk leyfi sér eilítið meira kæruleysi þegar einhver snjór er á jörðinni,“ segir Vigdís Marteinsdóttir, kirkjuvörður í Laugarneskirkju í samtali við DV. Hún segir starfsfólk kirkjunnar ekki velta sér mikið upp úr málinu.
„Við treystum bara fólki til að þrífa upp eftir sig.“

Ummæli eftir svona greinar eru oft skrýtnar. Í þessu tilfelli voru einungis þó þrjár af ellefu neikvæðar:

a)Banna hunda í þéttbýli – hundaeigendur eiga að skammast sín allir sem einn – allir þykjast þeir saklausir!!

 b)Banna hunda i RVK,!

 c)Sammála! Hundaeigendur hafa sýnt og sannað að þeir eru ekki færir um að virða þær reglur sem þeir undirgangast með því að fá leyfi til að halda hund.

Þetta eru skilaboð til okkar sem fáum góðfúslegt leyfi yfirvalda til að halda hund.

Sérstakar þakkir Hundalífspóstsins fyrir ummæli fær skynsami kirkjuvörðurinn í Laugarneskirkju, Vigdís Marteinsdóttir.

http://www.dv.is/frettir/2016/3/25/kirkjulod-kafi-i-hundaskit

Gleðilega páskahátíð                                       Puppie Dogs Holding a flowers