Bréf til MAST varðandi hálsólar

Þórhildur Bjartmarz:

Póstur sem ég sendi til MAST.

Erindi er varðar: Reglugerð um velferð gæludýra. Úr 8. grein Þjálfun, keppni og útbúnaður:

Óheimilt er að nota hvers konar tæki eða tól, eða beita þau dýr sem þjálfa skal, neinum þeim aðferðum eða þvingunum, sem valda þeim sársauka eða hræðslu. Notkun, sala og dreifing á hvers konar útbúnaði sem gefa dýri rafstuð eða valda verulegum óþægindum er bönnuð. Óheimilt er að nota ósýnilegt rafgerði fyrir gæludýr. Notkun, sala og dreifing á hálsólum með gadda eða hvassa kanta innan á ól er bönnuð. Hálsól skal vera úr slíku efni og þannig gerð að hún geti ekki herst að hálsi eða skaðað dýrið á annan hátt.

Vinsamlegast upplýsið mig svo fljótt sem auðið er:

Hvar er hægt að fá hálsól sem getur ekki herst að hálsi?

Allar hálsólar sem ég hef athugað og séð hingað til herðast að hálsi þegar togað er í ólina. Hvort sem hundurinn er í taumi eða þegar einhver heldur í hálsólina t.d. til að halda hundinum föstum.

Samkvæmt reglugerðinni skulu hundar sem fara út frá fjögurra mánaða aldri bera hálsól með merki þar sem fram koma eigendaupplýsingar svo sem nafn og símanúmer umráðamanns. Þannig að hundaeigendur eiga samkvæmt reglugerðinni að vera með hálsól á hundunum sínum og því  er áríðandi fyrir okkur sem vilja framfylgja reglugerðinni að fá nánari upplýsingar.

Vinsamlegast sendið mér upplýsingar um hálsólar sem eru nú viðurkenndar samkvæmt reglugerðinni, hvernig hönnun ólarinnar forðar því að hún herðist að hálsi ásamt framleiðsluheiti og dreifingaraðila.

Með bestu kveðju

Þórhildur Bjartmarz

Garðabær 1. marz 2016