Jórunn Sörensen:
Það var bæði gaman og fróðlegt fyrir mig að horfa, hlusta og fylgjast með þegar Þórhildur Bjartmarz kynnti íslenska fjárhundinn fyrir heimilismönnum og gestum á Ísafold hjúkrunarheimili og þjónustumiðstöð í Garðabæ, 17. mars sl. Brynhildur Bjarnadóttir og hundurinn Skuggi veittu Þórhildi ómetanlega aðstoð.
Sýnd var kynningarmynd um íslenska fjárhundinn sem Deild íslenska fjárhundsins gaf út árið 2001 og síðan svöruðu Þórhildur og Brynhildur spurningum, bæði heimilismanna og starfsfólks, um íslenska fjárhundakynið. Mikill áhugi var á þeim litum sem hundurinn hefur og hvað nöfn þeim hafa verið gefin: gulur, kolóttur, skjömbóttur…. Margir hundar fá síðan nafn eftir litnum eins og Kolur, Týra og Skjamba…
Aðalgeir Jónsson frá Húsavík fór með vísuna:
Heitir Smali hundur minn
hann er falur varla
Einatt smalar auminginn
upp um sali fjalla
Myndin vakti mikla athygli en enn meiri athygli vakti Skuggi sem sýndi öllum fádæma elskulegheit eins og íslenskum fjárhundi einum er lagið.
Heimilismenn Ísafoldar eru ekki ókunnir hundum því þar vinnur Karlott Ólafsson aðstoðarmaður sjúkraþjálfara. Hann sér um hreyfingu, boccia og skemmtun svo sem bingó. Með honum í vinnunni er labradortíkin hans sem meðal annars fer með í gönguferðir með heimilismönnum.