Hundalíf í sögu þjóðar frá 900-1900

Jórunn Sörensen:

Fræðslukvöld Hundalífs 25. febrúar 2016

Þórhildur Bjartmarz hélt fyrirlestur um „Hundahald í sögu þjóðar“ og fór yfir þær heimildir sem hún hefur um hunda á Íslandi frá upphafi til 1900. Þetta er fyrsti hluti þriggja fyrirlestra sem Þórhildur heldur um hunda á Íslandi. Þórhildur hefur safnað gífurlegu magni heimilda um hunda og hundahald á Íslandi frá upphafi byggðar til okkar daga. Hún segir að þetta hafi allt byrjað þegar hún eignaðist íslenskan fjárhund fyrir tæpum fimm árum. Þegar hún fór í fyrsta sinn með níu vikna hnoðrann í sveitina vakti það athygli hennar hve árvakur hann var. Þetta litla kríli tók eftir hestum um það bil eins kílómetra í burtu og gjammaði hástöfum. Þessar skepnur ætlaði hann sko að reka í burtu. Þá vaknaði áhugi hennar á að vita meira um eiginleika íslenska fjárhundsins og hún byrjaði að leita.

Þórhildur hefur safnað heimildum um hunda á Íslandi s.s. í Íslendingasögum, Dýraverndaranum, ævisögum og í ritum Búnaðarfélagsins svo að eitthvað sé nefnt og hún er enn að safna.

Hundurinn hefur frá upphafi gegnt mikilvægu hlutverki í íslensku þjóðlífi. Strax sést hve dýrmætur hann hefur verið því hann var notaður sem vinargjöf á milli höfðingja. Eftir alvarlega hundapestir sem nánast útrýmdu hundum á ákveðnum svæðum lögðu menn sig í lífshættu og gengu þvert yfir landið til þess að ná í hunda og í hungursneiðum var fyrirskipað að lóga hundum.

Allt breytist þegar sullaveikin berst til landsins og þar með var hundurinn gerður að sökudólg. Og ljóst er á viðhorfi okkar Íslendinga til hundahalds og allra þeirra miklu takmarkana sem á því eru, að enn höfum við ekki unnið úr því þótt sullaveiki hafi verið útrýmt á landinu um 1900.

Áheyrendur gerðu góðan róm að fyrirlestri Þórhildar og urðu miklar umræður í kjölfarið.