Prófkvíði í Háskólanum á Akureyri

 Þórhildur Bjartmarz

DV í dag; Í Háskólanum á Akureyri í morgun, gafst nemendum kostur á að losa sig við prófkvíða og stress með því meðal annars að klappa litlum sætum hvolpi. Einnig var boðið upp á axlanudd, jóga og hugleiðslu í átakinu sem ber yfirskriftina „Segðu bless við stressið.“

Kristín Ágústsdóttir, forstöðumaður markaðs- og kynningarsviðs hjá Háskólanum á Akureyri sagði í samtali við DV að þetta sé í fyrsta skipti sem skólinn geri eitthvað þessu líkt og hún viti ekki til að aðrir háskólar hér á landi hafi boðið upp á sambærilega þjónustu.

Hugmyndin um að leyfa nemendum að klappa hvolpinum Trausta til að losa sig við stressið segir Kristín að sé fengin frá bandarískum háskóla þar sem tilraunin gaf góða raun. Dæmi eru einnig um sambærilegar uppákomur í háskólum í Bretlandi. Hvolpurinn Trausti er gæfur, þýskur fjárhundur og einstaklega krúttlegur eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. Greinina skrifaði Sigurður Mikael Jónsson

Frábær tilraun norðlendinga og vonandi að nemendum hafi gengið vel í prófunum eftir að hafa hitt Trausta. Þetta er svo sannarlega framfaraskref bæði það að nota hvolpinn til að ná niður stessi og það að hann hafi fengið leyfi til að fara inn í skólahúsnæðið. En vissulega væri fróðlegt að vita hvort svona ungir hvolpar hafi verið notaðir í ofangreindar tilraunir.

Starfsmenn Háskólans á Akureyri sýna það í verki að líðan nemenda skiptir miklu máli.