Hundamenn, og kattamenn eins og við Fischer.
Pistillinn er birtur á Pressunni.
Það er alltaf gaman að velta fyrir sér hunda- og kattafólki og jafnvel muninum á þeim ef einhver er. Sjálfur er ég kattamaður, en skil samt hundaaðdáendur vel, ég hef kynnst þannig dýrum og veit að það er ekki annað hægt en að hrífast af karakter, visku, trygglyndi og vináttu góðra hunda. Ég held það sé algengara að þeir sem mest hafi umgengist hunda eigi erfitt með að skilja hvað það er sem við kattafólkið sjáum við okkar dýr; hundamenn skilja sumir ekki hvað geti verið spennandi við ferfætlinga sem ekki láta að stjórn fyrir nokkurn mun, er hvorki hægt að siga eða skipa fyrir, elta ekki auðsveipir sinn eiganda og bera svosem ekkert sérstaka lotningu fyrir honum; ég held að þeir sem kynnst hafi köttum viti að þeir telji sig nú svona gegnumsneitt yfir mannfólkið hafna. Og að vinátta við fólk felist í því að þeir útvelja sumar manneskjursem nógu verðugar til að fá að annast sig.
Mannjöfnuður
Maður hefur stundum séð í blaðagreinum og ýmsu káseríi gerðan samjöfnuð á frægum hunda- og kattavinum, og þá hefur yfirleitt hallað mjög á hundamenn; dregnar eru upp frægar jákvæðar persónur sem aðhylltust ketti eins og Hemingway, Churchill og frægir húmanistar og þeim stillt andspænis þekktum hundamönnum á borð við Hitler og Stalín. Þetta er að vísu í gríni gert, en ekki minna ósanngjarnt fyrir það, segi ég af eigin reynslu sem aldavinur margra hundaeigenda sem jafnframt eru gegnheilt og gott fólk og eiga ekkert skylt við þau áðurnefndu fól sem þarna eru nefnd. Hinu er ekki að neita að stundum kemur fólk manni notalega á óvart með því að reynast hafa fallegt næmi fyrir dýrum, og það jafnvel hinir, í fljótu bragði, ólíklegustu menn.
lesið alla greininna á eyjan.is
http://blog.pressan.is/einarkarason/2016/02/03/hundamenn-og-kattamenn-eins-og-vid-fischer