Úr Sámi – Kátur frá Keldum

Þórhildur Bjartmarz: Það er ýmislegt skemmtilegt að sjá í gömlum blöðum Sáms sem HRFÍ gefur út. Á þeim tíma sem þessi stutta grein var birt stóðu bæði Hundaræktarfélag Íslands og Hundavinafélag Íslands að útgáfu blaðsins.  Greinin er um Kát frá Keldum, sagt er frá honum með svo mikilli virðingu, til dæmis að um gáfur hans efaðist enginn, sem til þekkti:

Kátur frá Keldum Ól. 11-68 andaðist 22. des. 1978. Þessi merkishundur, sem flestir eða allir Ólafsvallahundar rekja ætt sína til, var fæddur á Keldum í október 1959 og var því á tuttuguasta aldursári er hann lést. Hann var fyrstu ár ævi sinnar á Írafelli í Kjós, en kom til Sigríðar og Kjartans á Ólafsvöllum árið 1964 og var þar síðan til dauðadags. Kátur frá Keldum var mikill eftirlætishundur á þessu stóra heimili og naut þar ýmissa forréttinda, en þar var jafnan margt hunda. Síðustu tvö árin var honum nokkuð farið að hraka, sjón og heyrn biluð og hann var orðinn giktveikur. Kátur var mjög fallegur hundur þegar hann var upp á sitt besta. Rauðgulur, með hvítan blett í hnakka, hvítar lappir og ljós í rófu. Hann var stór og myndarlegur, e.t.v. ívið of langur ef nokkuð var, byggingin annars prýðileg. Geðslag var sérstaklega gott og um gáfur hans efaðist enginn, sem til þekkti. Af honum er kominn mikill ættbogi. Foreldrar Káts voru Klói frá Sellátrum og Pollý frá Keldum, en til þeirra merkishunda eiga allir núlifandi íslenskir hundar ætt sína að rekja.  G.S.

 

IS0001168

Myndin er af síðu ISIC