Hundurinn minn

Mikael Torfason, rithöfundur svarar spurningum Hundalífspóstsins:

Hvað heitir hundurinn þinn/hundarnir þínir/teg og aldur?

Sesar. Júlíus Sesar Jr. fullu nafni. Þetta er gullfallegur sheffer-hundur sem er að verða eins árs á næstu dögum.

Af hverju valdir þú þetta kyn?

Ég kynntist Sesar eldri á mínum unglingsárum en það var hundur sem uppeldisbróðir minn, hann Knútur Rafn, átti. Sesar eldri var einmitt sheffer-hundur. Þetta er stór hundur og ef rétt er farið að í uppeldi er hann yfirvegaður og agaður. Þú getur kennt þeim allt. Shefferinn er aldrei efstur og bestur í einhverju ákveðnu ef maður gúglar hæfileika einstaka tegunda og les allar þessar greinar sem maður finnur um hunda og eiginleika þeirra. En hann er oft í öðru og þriðja sæti sem merkir að við erum að tala um mjög fjölhæfa tegund sem getur eiginlega allt ágætlega.

Hersu lengi hefur þú átt hund/hunda?

Ég hef verið hundamaður síðan á unglingsárum og það verður aldrei breyting á því. Auðvitað hafa aðstæður mínar verið misjafnar og ég hef í heildina átt hlutdeild í þrem hundum. Sesar minn nú er sá hundur sem ég hef laggt mest á mig við að ala upp og þjálfa.

Hvernig lýsir þú samskiptum þínum/fjölskyldunnar og hundsins?

Sesar er auðvitað bara orðinn partur af fjölskyldunni. Ég er svo heppinn að vinna heima þar sem ég er rithöfundur og núna þegar ég skrifa þessi orð liggur hann hérna fyrir aftan mig sofandi. Við byrjuðum daginn á stuttum göngutúr og vöktum svo dóttur mína sem er sex ára og þegar hún var klædd og komin á ról gengum við Sesar með henni og nágrannakrökkum í skólann. Það er fínasti göngutúr. Svo lagði hann sig og fer aftur í langan göngutúr í hádeginu. Þá erum við líka oft að gera ýmsar æfingar sem við lærðum á hvolpanámskeiðinu. Jú, og köstum bolta og leikum okkur saman. Núna er hann hinsvegar sofandi.

Ég ákvað að taka þetta svoldið með trompi þegar Sesar kom inn í fjölskylduna fyrir part ársins í fyrra. Helti mér í lestur góðra bóka og mæli sérstaklega með bókum eftir munkana frá New Skete í New York ríki. Fyrsta bókin sem ég las eftir þá var The Art of Raising a Puppy (http://www.amazon.com/The-Raising-Puppy-Revised-Edition/dp/0316083275). Æðisleg bók sem fer yfir öll atriði sem nýr hundaeigandi þarf að vita. Svo las ég How to Be Yor Dog’s Best Friend (http://www.amazon.com/How-Your-Dogs-Best-Friend/dp/0316610003/ref=pd_bxgy_14_img_2?ie=UTF8&refRID=1QV44PM4SGHXMBEWWXRJ) eftir sömu munka. Þessir munkar rækta sheffer-hunda í klaustri sínu. Þetta eru ótrúlegir menn og það er mikil heimspeki í þeirra bókum.

Er lífið betra með hundum?

Já, lífið er miklu betra með hundum. Núna er Sesar minn að verða eins árs og ég er að byrja að fara út að hlaupa með hann. Dýralæknirinn sagði mér að fara ekki með hann í löngu hlaupatúrana mína fyrr en hann væri eins árs. Við eigum góðar stundir fram undan þegar við tökum 10 kílómetrana 2-3 í viku en þess á milli er ég alltaf fullur þakklætis að vera kominn út í göngutúr. Ég vakna stundum upp nokkur hundruð metra frá heimilinu í algerri leiðslu og finn hamingjuna flæða um mig að vera kominn út að labba með minn hund í hvaða veðri sem er. Það eru forréttindi. Kannski hljómar það undarlega í eyrum sumra en fyrir mér er það að þurfa að fara út með hundinn oft á dag, í hvaða veðri sem er, eitt það allra besta við að eiga hund. Mér líður bara miklu betur í sálinni að tölta út og hreinsa hugann. Það er auðvitað gott fyrir okkur báða. Hann þarf sína hreyfingu og fá að þefa af hverfinu og ég þarf að standa upp frá skriftum og anda að mér fersku lofti og fá nýjar hugmyndir.

 

-Mikael Torfason rithöfundur

 

bækur sesar og kisi

Myndirnar eru af bókunum sem ég nefni. Og af Sesar að kynnast bróður sínum honum Bjarti. Og svo ein glæný af honum þar sem hann liggur hérna hjá skrifborðinu mínu.

– –
www.mikaeltorfason.com

 

 

Þórhildur – forsíðumynd frá Visir.is