Brynhildur Inga skrifar fyrir yngstu lesendur Hundalífspóstsins.
Eins og ég hef oft sagt þá er ég mjög ánægður í Kópavoginum og fæ stundum að koma í pössun til fóstru minnar sem mér þykir afskaplega vænt um og vildi helst fá að búa hjá. En vegna þess hversu leiðinlegur Móri var alltaf við mig eftir að við fluttum suður þá sætti ég mig við að búa hjá dóttur Móra sem heitir Sylgja, hún er eiginlega ofvirk en það er samt gott að búa hjá henni. Hún á það til að grafa sig undir girðinguna eða klifra yfir hana bara til þess að hitta krakkana í hverfinu.
Mér dettur sko ekki í hug að elta hana enda veit ég að hundar mega ekki gangar lausir og fara á flakk.
Það er alltaf fjör að koma til fóstru því hún gefur hrafninum að éta á veturna. Hrafninn fær yfirleitt samloku með nautahakki eða feitt lambahakk, hann situr uppí klettum og fylgist vel með þegar það er komið að matartíma og er snöggur að koma og sækja samlokuna.
Hann hefur mjög gaman af því að stríða okkur hundunum með því að fljúga lágt yfir húsinu og lóðinni og jafnvel setjast á Mórahól í garðinum. Við fáum sko góða hreifingu við að eltast við hann fram og til baka allan daginn.
Fóstra segir að hann sé okkar einkaþjálfari.
Þegar ég var fluttur að heiman fékk fóstra sér tík sem heitir Sif, hún er systir Sylgju sem ég bý með. Svo þegar Móri dó fékk hún sér rakka sem heitir Hjálmur. Sif er reyndar amma Hjálms og þau hafa mjög gaman af því að vinna með fóstru. Þau fara í hundafimi, sporleit og margt annað skemmtilegt. Fóstra segir að það sé alveg nauðsynlegt að vinna svolítið með hundana því annars verða þeir leiðir og taka uppá því að gelta eða skemma hluti. Barnabörn fóstru hafa mjög gaman af því að fara með fóstru og hundunum á göngu, einnig finnst þeim gaman af að kenna þeim að finna nammibita sem þau fela einhverstaðar inni eða úti. Við hundarnir höfum svo gaman af að fá að taka þátt í sem flestu og finna það að við séum einn af fjölskyldunni. Ég er nú kominn á 17 ár og er orðinn lúinn og nenni ekki lengur að hlaupa um en ligg frekar inni og fylgist vel með öllu. Ég vona að allir krakkar séu duglegir að sinna sínum hundum, leika við þá og kenna þeim hundakúnstir.
Með kveðju
Brynhildur Inga Einarsdóttir, hundaþjálfari
borg1@centrum.is
www.reykjadals.is