Það var ekki Evrópusýning hunda sem dró mig til Oslóar nú í byrjun september heldur námskeið hjá sænska hundaþjálfaranum Monu Kjernholm sem var gestakennari í hundaskóla Line Sandstedt í AntrozoologiSenter 8. og 9. sept.
Námskeiðið var sérstaklega auglýst fyrir þá sem taka þátt í hlýðniprófum og þátttakendurnir höfðu allir mikla reynslu í hlýðniþjálfun. Mona Kjernholm er reynslumikill leiðbeinandi sem hefur brennandi áhuga fyrir keppnisþjálfun og hefur sjálf verið með hundana sína í hlýðnikeppnum sem og keppt með landsliði svía. Auk þess þjálfar hún og keppir í hundafimi og „heelwork to music“ með border collie og poodle hundana sína.
Mona er þekkt fyrir einstaka hæfileika og er eftirsóttur leiðbeinandi í allri Skandivaníu. Hún er fljót að sjá einfaldar lausnir sem auðvelt er að framkvæma þannig að góður árangur skilar sér á svipstundu.
Þátttakendur á námskeiðinu stigu ekki eitt skref með hundinn sér við hlið á æfingavellinum nema vera búnir að skipuleggja sig. Til dæmis í æfingunni hælganga án taums þá spurði Mona: „ætlar þú að fara 4 metra 4 ½ eða 5 metra – þú verður að hafa plan“. Svo þarf að hafa plan B ef A gengur ekki upp. Niðurstöðurnar voru svo metnar í ítrustu smáatriðum.
Á námskeiðinu voru hundarnir flestir mjög ungir en það var ekki hægt að sjá á hegðun eða kunáttu þeirra. Það var ekkert sem truflaði þá. Ekki lóðatík sem tók þátt í námskeiðinu og ekki aðrir hundar sem voru æfðir á svæðinu á sama tíma.
Það sem ég hef séð í keppnisþjálfun hér í Noregi bæði fyrr og nú þá er hún tekin mjög alvarlega og hundarnir undirbúnir fyrir hlutverk sitt frá fyrstu viku. Hundarnir eru samt glaðir, afslappaðir og sína engin merki um undirgefni, hræðslu eða ofþjálfun.
En þjálfunin tekur á þolinmæðina og skipulagningu. Þú sem þjálfarinn verður að vera tilbúinn þegar þú gengur inn í keppnishringinn. Samkvæmt nýju FCI hlýðniprófsreglunum spyr þig engin: „ er þú tilbúinn fyrir næstu æfingu“ heldur verður það „ við erum tilbúin fyrir næstu æfingu“. Þitt hlutverk sem þjálfari hundsins verður að vera skipulagður og skrefi á undan – hafa gott plan.
Þórhildur skrifar frá Ås í Noregi