Jórunn Sörensen:
Þefskyni hunda er við brugðið, það vitum við sem eigum hunda. En kannski áttum við okkur ekki eins vel á því hve þefskynið á stóran þátt í því að hundurinn okkar þekkir okkur. Því langar mig að deila með ykkur minningu um einstakt atvik.
Þá átti ég tvo hunda, Spesíu borderterrier og Kátínu labrador. Þegar ég eignaðist þessa hunda var ég ekki með starfandi nýru og var því í blóðskilun sem kölluð er. Sá sem er í blóðskilun fer niður á Landspítala þrisvar í viku. Þar er hann tengdur með slöngum inn í æðakerfið við stóra tölvu – blóðskilunarvél. Blóðið hringsólar síðan út úr líkamanum inn í „gervinýra“ og síðan inn í hann aftur nokkrar klukkustundir í senn. Nú, nú – það kom síðan að því að ég gat fengið ígrætt nýra frá manninum mínum. Í þá aðgerð fórum við hjónin og á meðan fóru hundarnir okkar á hundahótel.
Sá sem hefur ígrætt líffæri tekur lyf sem bæla ónæmiskerfið svo líkaminn hafni ekki þessum aðskotahlut. Þegar ónæmiskerfið er bælt þarf að gæta vel að hreinlæti svo þegar við komum heim eftir aðgerðirnar á fimmta degi og búið að sækja tíkurnar, kom Þórhildur Bjartmarz vinkona mín til þess að baða þær eftir dvölina á hundahótelinu.
Hún skolaði þá úti og ég stóð í dyrunum og fylgdist með. Þegar búið var að þurrka þær kallaði ég nöfnin þeirra og þær Spesía og Kátína brugðust skjótt við og hlupu í hendingskasti í átt til mín. En allt í einu snarstansa þær. Horfa á mig. Horfa til baka á Þórhildi. Horfa á mig og hlaupa síðan til baka til Þórhildar. Þær þekktu mig ekki.
Ég sagði lækninum mínum frá þessu og hann var ekki hissa. Hann benti mér á þá staðreynd að blóð þess sem er í blóðskilunarvél er hreinsað þrisvar í viku, fjórar klukkustundir í senn, þ.e. tólf klukkustundir á viku en heilbrigt nýra hreinsar blóðið stöðugt allan sólarhringinn. Það er því aðeins brot af eiturefnum líkamans sem blóðskilun hreinsar á móti heilbrigðu nýra. Hundur með sitt einstaka lyktarskyn á ekki í vandræðum með að greina muninn.
Það tók ekki langan tíma fyrir tíkurnar að sætta sig við þessa nýju mömmu – sem hafði sama útlit, sömu rödd og takta og sú gamla en allt aðra líkamslykt.