Gleymdi hundunum í læstum bíl í steikjandi hita við Fífuna
birt á Visir.is:
Lögreglan í Kópavogi var kölluð til á fjórða tímanum í dag eftir að vegfarendur tilkynntu um tvo Golden Retriever hunda sem læstir voru inn í bifreið við íþróttamiðstöðina Fífuna.
Engar rifur voru á gluggum bílsins og í glampandi sólskininu myndaðist gríðarlegur hiti í bílnum en lofthiti var þá um 18 gráður. Að sögn sjónarvotta voru hundarnir aðframkomnir af hita og másuðu mikið.
Vegfarandi sem Vísir náði tali af var í rúmlega klukkustund að reyna að hafa upp á eigendum bílsins meðan hundarnir sátu þar enn læstir inn. Því hafi lögreglunni verið gert viðvart.
Eigandi hundanna hafði verið að fylgjast með Símamótinu í knattspyrnu sem fram fer við Fífuna þessa dagana.
Ráða illa við mikinn hita
Dýraverndunarsamtök á Norðurlöndum vara gæludýraeigendur reglulega við því að skilja dýr sín eftir í bílnum nú yfir sumartímann þar sem þeir geti drepist úr hita.
Dönsku dýraverndarsamtökin Dyrefondet hafa sagt að þetta sé vaxandi vandamál þar í landi og að árlega berist fregnir af hundum sem látið lífið eftir að hafa gleymst í bílum.
Yfir sumartímann, þegar heitast er og sólin skín, getur hitinn í bílnum hlaupið á tugum gráða og það þoli hundar ekki. Því segir talsmaðurinn samtakana það vera betra fyrir fólk að skilja hundinn eftir heima í stað þess að kvelja hann í bílnum.
STEFÁN Ó. JÓNSSON skrifaði á Visir.is
sjá einnig grein á Hundalífspóstinum: http://hundalifspostur.is/2015/06/29/hundar-geta-ofhitnad-og-drepist-i-heitum-bil/