Hundalíf á nýjum stað

Gunnhildur Jakobsdóttir:

Fyrir tæpum 10 árum síðan pakkaði ég því helsta í bílinn minn, setti íbúðina mína á leigu og lagði af stað til Akureyrar. Ástæðan voru búslóðaflutningar með kærastanum og hundi en ég ætlaði að læra að verða iðjuþjálfi, sem kennt er í Háskólanum þar. Á leið minni norður kom ég við á Snæfellsnesi og tók þátt í námskeiði hjá tveimur flottum norskum hundaþjálfurum. Þegar ég lagði drekkhlaðnum bílnum mínum í stæðið fyrir utan Breiðarblik þá örlaði fyrir smá fiðrildi í maganum yfir nýja lífinu mínu sem beið mín fyrir norðan. En í frábærum félagskap hunda og manna þá gat ég lagt allar áhyggjur mínar til hliðar og notið þess að hundast. Að loknu námskeiðinu kláraði ég ferðina norður og kom mér fyrir í yndislegu húsi rétt utan Akureyrar.

Á Akureyri þekkti ég engan. Eina tengingin mín þangað var að vinur minn, Albert hundaþjálfari með meiru, kom þangað tvisvar á ári og hélt þar námskeið. Svo ég beið ekki boðanna þegar hann loks kom og fylgdi honum og aðstoðaði á námskeiðum. Ég hafði fengið að fylgjast með á hvolpanámskeiðum í Reykjavík og fannst það reglulega skemmtilegt að verða vitni af því að sjá þegar kviknar á perunni hjá litlum hvolpaskottum.

Að loknu hverju námskeiði hvatti Albert eigendur til að þjálfa reglulega og mælti með að áhugasamir mynduðu hópa og skiplegðu sameiginlegar æfingar. Í einum hópnum fyrir norðan voru áhugasamir þátttakendur sem biðu ekki boðanna og hóað var á fyrstu æfinguna. Fljótlega myndaðist hópur af ólíkum einstaklingum sem fæstir virtust eiga nokkuð sameiginlegt við fyrstu sýn annað  en að eiga hund. Æfingarnar fóru fram á þriðjudögum, tóku um klukkustund og skiptumst við á að stjórna þeim. Reglulega urðu breytingar á hópnum, nýtt fólk bættist í hann og aðrir hættu.

En fljótlega varð ákveðinn kjarni til sem virtist hafa svipað nálgun á hundahaldi og héldum við áfram að hittast og æfa og skapaðist með tímanum kær vinskapur. Öll eigum við það náttúrulega sameiginlegt að vera afburðargóðir þjálfarar og skiptumst við á að finna upp hjólið þegar kemur að hundahaldi. Ég veit ekki hvernig við komumst af áður en við kynntumst enda óþreytandi að aðstoða hvort annað og ráðleggja (beðin og óbeðin). Svo furðulega vildi þó til að árangurinn var ekki alltaf í samhengi við afburðafærni okkar á þessu sviði og höfum við því verið dugleg að hvetja hvort annað og hugga þegar svo hefur borið við og það hefur svo sannarlega þurft. Við höfum mætt keik í próf en farið heim með skottið á milli lappanna, átt við ófá heilabrot vegna hegðunar hundana okkar og á tíðum þurft að taka erfiðar ákvarðanir. Ég get einungis talað fyrir sjálfa mig og sagt að það var ómetanlegt að eiga þau þá að í gegnum þetta. Skemmtilegra og blessunarlega algengara hefur verið að að upplifa alla sigrana og gleðina með þeim þegar vel gengur og þá höfum við sko fagnað. Hvort sem gengur vel eða illa þá er nú gott að vera í góðum félagsskap. Oft er talað um að hundar séu ísbrjótar í samskiptum við aðra og sannast það nú nær á hverjum degi þegar farið er út með hundinn að ganga. Í gegnum mitt hundalíf hef ég bæði átt í ófáum kurteisilegum samræðum við ókunnuga út á götu ásamt því að kynnast frábærum vinum sem ég hefði án hunds eflaust ekki kynnst.

Í þessum rituðu orðum nú, tæpum tíu árum síðar er ég að pakka búslóðinni aftur í kassa og stefni á að flytja suður. Að þessu sinni með mann, hund og tvö börn. Ólíkt því þegar ég fluttist norður þá þekki ég marga í Reykjavík en samt sem áður er ég með stærri hnút í maganum enda flyt ég frá frábærum æfingarfélögum og kærum vinum.

 

Vesturfarar 2013 Kristín Jóna 021 Vesturfarar 2013 Kristín Jóna 756552676_10151787694979133_618979774_n