Mbl 6. júní, Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is:
Jóna Th. Viðarsdóttir var sæmd gullmerki Hundaræktarfélags Íslands á aðalfundi félagsins á dögunum, en þá lét hún af stjórnarstörfum eftir að hafa setið í stjórninni í 20 ár og þar af sem formaður í áratug. “Þetta hefur verið mikið og skemmtilegt sjálfboðaliðastarf,” segir Jóna og bætir við að það sé ánægjulegt að geta látið gott af sér leiða með því að berjast fyrir réttindum hunda og hundaeigenda. Hún rifjar upp að ekki séu liðnir nema nokkrir áratugir síðan hundaeigendur þurftu helst að fela hunda sína og ferðast um með þá í bílskottum en nú sé öldin önnur. “Frumherjarnir þurftu að hafa mikið fyrir hlutunum en nú er starfið miklu auðveldara.” Hún þakkar það ekki síst því að margir framámenn í þjóðfélaginu beiti sér í þágu hunda og hundaeigenda. “Það þykir enda orðið sjálfsagður lífsmáti að eiga hund og halda hund og það liggur við að hundur sé í öðru hverju húsi.”
Taka tillit til allra
Fyrir skömmu var samþykkt í borgarstjórn tillaga þess efnis að ríkisvaldið rýmkaði reglur svo að hvert sveitarfélag ákvæði hvernig það vildi haga reglum um hvar leyfilegt væri að hafa dýr. Jóna segir að þetta sé ákveðinn sigur, rétt eins og þegar hundahald var leyft í borginni með skilyrðum 2006, en áður hafi það verið bannað og þurft að sækja um leyfi. Viðhorfsbreytingin sé samfara almennara hundahaldi. “Ég hef alltaf lagt áherslu á að vinna málið í stuttum skrefum í einu því það verður líka að taka tillit til þeirra sem ekki aðhyllast hundahald,” segir hún.
Félagið var stofnað 1969, fyrst og fremst til að varðveita, hreinrækta og kynbæta íslenska fjárhundinn. ” Hann var í útrýmingarhættu,” segir Jóna. ” Við eigum bara einn þjóðarhund og okkur ber að standa vel vörð um hann og hefur orðið vel ágengt.”
Oft hefur verið sagt að hundurinn sé besti vinur mannsins. “Hundar eru mjög góðir félagar og reynast vel í svo mörgu,” segir Jóna og vísar til leitarhunda og hunda inni á spítölum og öldrunarstofnunum.
Herdís Hallmarsdóttir er nýr formaður Hundaræktarfélagsins en Jóna, sem er skrifstofustjóri Blaðamannafélags Íslands, segist halda áfram að starfa fyrir Hundaræktarfélagið, m.a. í vinnuhópi um samskipti við opinbera aðila. “En nú hef ég meiri tíma til þess að sinna öðrum áhugamálum og rækta sjálfa mig,” segir hún.