Heiðursmerki Hundaræktarfélags Íslands

 Þórhildur Bjartmarz:

Í auglýsingu um aðalfund félagsins næsta þriðjudag er 3. liður í daskrá fundarins: Heiðrun heiðursfélaga. Hverjir hafa fengið heiðursmerki HRFÍ og hvenær?

Heiðursmerki HRFÍ hafa verið veitt tvisvar sinnum til samtals átta aðila. Guðrún R. Guðjohnsen, þáverandi formaður HRFÍ heiðraði fimm aðila með gullmerki árið 1989 í tilefni 20 ára afmæli HRFÍ. Þetta var einu ári eftir að hundahald í Reykjavík var leyft með undanþágu.

Úr Sámi 1989 H.F.: Í tilefni 20 ára starfsemi HRFÍ ákvað stjórnin að veita þeim aðilum sem hafa sýnt félaginu einstakan stuðning og velvild í gegnum árin heiðursmerki HRFÍ. Samþykkt var að veita Davíð Oddsyni borgarstjóra í Reykjavík svo og formönnum hundaræktarfélaganna í Svíþjóð, Noregi, Finnlandi, og Danmörku heiðursmerki Hundaræktarfélagsins úr gulli.

Árið 2004 heiðraði þáverandi formaður HRFÍ Þórhildur Bjartmarz þrjár merkiskonur með gullmerki félagsins.  Þetta voru þær Sigríður Pétursdóttir, Guðrún R. Guðjohnsen og Emilía Sigursteinsdóttir.

Frú Sigríður Pétursdóttir á Ólafsvöllum hóf ræktun á íslenska fjárhundinum 1967. Þá var íslenski hundurinn nærri útdautt hundakyn en með astoð Mark Watson og Páls A. Pálssonar tókst Sigríði að bjarga stofninum. Árið 1969 stofnaði Sigríður ásamt fleirum Hundaræktarfélag Íslands og varð síðar formaður félagsins. Hr. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti heiðraði Sigríði Pétursdóttur árið 2008 með riddarakrossi fyrir störf að ræktun íslenska fjárhundsins. Sigríður hefur réttindi til dæma fjölmörg hundakyn á hundasýningum.

Guðrún R. Guðjohnsen var fyrsti formaður deildar íslenska fjárhundsins. Guðrún ræktaði íslenska fjárhunda með góðum árangri undir ræktunarnafninu Garða. Guðrún var formaður HRFÍ  á miklum baráttutímum og stóð vaktina þegar 60 ára banni við hundahaldi í Reykjavík var breytt árið 1984 í undanþágu til að halda hund. Guðrún starfar enn að ýmsum málum innan félagsins . Guðrún hefur réttindi til að dæma íslenska fjárhunda á hundasýningum.

Emilía Sigursteinsdóttir sat í stjórn HRFÍ og varð síðar sýningarstjóri HRFÍ í mörg ár. Það var henni að þakka að sýningar félagsins stóðust að fullu samanburð við hundasýningar um allan heim. Metnaður og fagmennska voru í fyrirrúmi á hundasýningum undir stjórn Emilíu enda var hún dáð og elskuð af öllum dómurum sem hingað komu. Emilía lést árið 2004.

Listi yfir þá sem fengið hafa heiðursmerki HRFÍ úr gulli:

  1. 1989 Helge Lie, Noregi
  2. 1989 Jörgen Hindse Madsen, Danmörku
  3. 1989 K.G. Frederiksson, Svíþjóð
  4. 1989 Pekka Mustonen, Finnlandi
  5. 1989 Davíð Oddson, borgarstjóri í Reykjavík
  6. 2004 Emilía Sigursteinsdóttir
  7. 2004 Guðrún R. Guðjohnsen
  8. 2004 Sigríður Pétursdóttir

(Birt með fyrirvara um villur)

Garðabær 21. maí 2015 thorhildurbjartmarz@gmail.com