Ég heiti Viktoría Jensdóttir og bý á Álftanesi ásamt eiginmanni mínum, tveimur börnum og hundi. Ég er iðnaðarverkfræðingur og hef sérhæft mig á sviði straumlínustjórnunar þar sem aðaláhersla er á stöðugar umbætur (e. Lean). Ég starfa á því sviði á Landspítalanum. Fyrirtækið mitt Lean Ísland stendur fyrir stærstu stjórnendaráðstefnu á Íslandi sem haldin er ár hvert í Hörpu en yfir 400 manns mættu núna í mars síðastliðinn. Ég er varabæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ og formaður leikskólanefndar. Auk þess hef ég starfað sem sjálfstæður ráðgjafi hjá mörgum mismundandi fyrirtækjum. Mér hefur gengið mjög vel að vinna með ólíkum hópum að ná sameiginlegum markmiðum.
Árið 1993, þegar ég var 12 ára, eignaðist fjölskyldan írskan setter og eftir það varð ekki aftur snúið. Ég hef átt standard púðla, tíbet spaniel og afghan hound, í dag erum við með petit brabancon. Við eigum einnig 5 mánaða gamla írsk setter tík í Belgíu sem kemur til landsins í sumar. Ég hef alla tíð tekið virkan þátt í starfi HRFÍ. Keppti lengi í ungum sýnendum, aðstoða á sýningum sem hringstjóri og ritari. Það var svo árið 2012 að ég ákvað að taka skrefið lengra og sækja um að verða sýningadómari. Ég hef réttindi á labrador retriever, golden retriever, amerískan- og enskan cocker spaniel. Núna er ég enn fremur að bæta við mig tegundunum íslenskum fjárhundi, síberian husky, cavalier, tíbet spaniel og schnauzer. Ég sit í félagi sýningadómara á Íslandi og hef tekið fjölmörg námskeið um ræktun, sýningar o.fl. Ég hef nýlega fengið samþykkt ræktunarnafnið Ruatogha.
Ástæða þess að ég gef kost á mér í stjórn HRFÍ er mikill áhugi á að vinna fyrir félagið mitt. Ég tel enn fremur að mín reynsla geti hjálpað við eftirfarandi áhersluþætti: – Auka aðgengi HRFÍ að samfélagsmiðlum og gera heimasíðu enn betri – Nota samfélagsmiðla til þess að auka sýnileika og kynningu á félaginu með því að nota Facebook, Snapchat og Instagram á viðburðum o.fl. – Stytta eða afnema einangrun hunda – Efla hundamenningu á Íslandi en það gerum við með góðu fordæmi og betri samvinnu félagsmanna – Skoða tölvukerfi sem eru í notkun hjá HRFÍ með það að leiðarljósi að einfalda og bæta verkferla – Stuðla að bættri menntun íslenskra sýninga – og veiðidómara og koma þeim á framfæri erlendis – Skoða og greina hvernig hægt er að halda utan um sjálfboðaliða sem eru félaginu ómetanlegir í allri starfsemi og uppbyggingu þess – Styðja og efla ungmennastarf félagsins – Stuðla að aukinni fræðslu fyrir ræktendur með áherslu á heilbrigði og ræktunarmarkmið bæði útlits-og vinnueiginleika –
Það er mín von að ég fái þitt atkvæði í stjórnarkjörinu í maí.