OKKAR hús Hátún og Sléttuvegur

Þórhildur Bjartmarz

Í gær 29. apríl skrifaði ég pistil um hundaþjálfara sem starfa í Noregi og verkefni þeirra að fara á heimili fatlaðra og aðstoða þá við að gera heimilishunda að hjáparhundum.

Sama dag birtist þessi frétt í DV (úrdráttur): Öryrkjar í leiguíbúðum á vegum Öryrkjabandalagsins þurfa að losa sig við dýrin.

Blátt bann hefur verið lagt á dýrahald í leiguíbúðum Brynju hússjóðs Öryrkjabandalagsins við Hátún og Sléttuveg en íbúum var gefinn frestur til 15. maí til þess að losa sig við dýrin eða finna sér annað húsnæði.

Edda Indriðadóttir á tíkina Loppu hún býr við Sléttuveg, ásamt kærasta sínum. Edda er flogaveik en hún segir Loppu hafa bjargað lífi sínu. Ekkert annað sé í stöðunni en að flytja út ef reglunum verður framfylgt eins og boðað er þann 15. maí næstkomandi.

„Við búum hérna tvö saman, ég og kærastinn minn. Loppa hefur algjörlega bjargað mér. Ég er flogaveik og fæ alls kyns flog. Um daginn fékk ég ráðvilluflog og ég vissi ekkert hvar ég var og vissi ekki einu sinni nafnið á hundinum. Eina sem ég kom út úr mér var „Heim“ og hún Loppa vísaði mér leiðina inn hérna heima. Ég veit ekki hvar ég hefði endað ef ekki væri fyrir hana Loppu,“ segir Edda sem vonar að forsvarsmenn Öryrkjabandalagsins sjái að sér enda um líf og dauða að ræða.

Björn Arnar Magnússon; „Þetta ætti ekki að koma neinum á óvart. Það hefur alltaf verið bannað að vera með dýr í okkar húsum og núna erum við að framfylgja þessum reglum,“ sagði Björn.

Jú, það er bannað að vera með dýr í OKKAR húsum. Í fréttinni er ekkert um það að þessi dýr séu til vandræða fyrir aðra íbúa hússins. Hvað er eiginleg málið? Á fólkið svo að líta svo á, eftir að það hefur losað sig við gæludýrin sín að það eigi sitt eigið heimili í OKKAR húsum. Því eigi bara að líða svo vel í OKKAR húsum að það þurfi ekki félagskap dýra.

En er ekki jákvætt að fólkinu líði vel með dýrunum sínum. Er ekki markmiðið með OKKAR húsum að íbúunum líði vel, þeir hafi viss þægindi og finni til öryggis. Það er ekki sanngjarnt að fólk sem kýs að hafa gæludýr hjá sér fái ekki að búa við sama öryggi og aðrir. En ef gæludýrið er með hávaða og raskar ró annara sem um munar þarf að skoða málið frá öðru sjónarhorni. Eru þetta OKKAR hús en ekki þeirra?

thorhildurbjartmarz@gmail.com