Hundaeigendur í þéttbýli á Íslandi þurfa málsvara – Bréf stjórnar til HRFÍ

Neðangreint bréf var sent stjórn Hundaræktarfélags Íslands miðvikudaginn 29. Apríl 2015 af gefnu tilefni – en engin andmæli heyrast frá þessi stærsta félagi um hunda sem er starfandi á landinu við því skilnings- og virðingarleysi sem hundaeigendur verða fyrir af hálfu starfsmanna borgaryfirvalda – hundaeftirliti, lögreglu og dómsvaldi.

Til stjórnar HRFÍ

Erindi bréfsins: Hundaeigendur í þéttbýli á Íslandi þurfa málsvara

Ég undirrituð óska vinsamlega eftir að stjórn HRFÍ taki eftirfarandi mál fyrir á næsta fundi sínum. Málið er aðkallandi.

Í Morgunblaðinu laugardaginn 25. apríl 2015 er þess getið á forsíðu að aflífa hafi þurft sex hunda á síðasta ári. Einnig er tekið fram að hundaeigendur „hafi verið kærðir vegna ofbeldis og hótana þegar sækja þurfti (leturbreyting mín) hunda sem ekki var samþykki fyrir í fjölbýli.

Forsíðufréttinni er síðan fylgt eftir á síðu 28 inni í blaðinu og þar er m.a. haft eftir Óskari Björgvinssyni hundaeftirlitsmanni:

„Ég er með eitt mál þar sem íbúð var keypt með þeim fyrirvara að hundahald væri leyft. En þegar upp var staðið kom í ljós að svo var ekki. Farið var í það að ná hundinum úr húsi en tilfinningar eru oft svo miklar í þessum málum. Fólk er farið að manngera hundana og flytur frekar en ð losa sig við hundinn (leturbreyting mín).“

Og áfram er haft eftir Óskari að þegar fólk velur að flytja ekki sé lögreglan er kölluð til til þess að fjarlægja hundinn samkvæmt dómsúrskurði og þá lendi menn í því að eigandi hunds lemur frá sér og hefur uppi hótanir.

Í lok fréttarinnar gerir Óskar „fólki“ upp skoðanir og fyrirætlanir án þess að hafa fyrir því nokkur rök þegar hann talar um hunda sem finnast lausir og eigandi finnst ekki en þá er haft eftir honum:

„Stundum hefur maður samt á tilfinningunni að fólk sé að losa sig við hunda án þess að neinn viti.“

Margar spurningar koma upp í hugann þegar þessi grein er lesin. Í fyrstu eru það orð Óskars sem lýsa takmarkalausu skilningsleysi á því hvers virði það er fyrir fólk að eiga hund en talar um að „manngera“ dýrin og virðist bæði undrandi og hneykslaður á því að fólk verður viti sínu fjær af reiði og örvæntingu þegar lögreglan er mætt með dómsúrskurð upp á arminn til þess að rífa hundinn af eigendum.

Því miður er óviðunandi framkoma og fullkomið skilningsleysi yfirvalda sem og ýmissa hússtjórna ekki einsdæmi og er svona ástand hundaeigendum og hundum þeirra ekki bjóðandi. Þetta er dæmi um lögregluríki og ekkert annað. Og það sem verra er að hundaeigendur og hundar þeirra virðast ekki eiga sér neinn málsvara.

Það er því knýjandi að HRFÍ komi fram í fjölmiðlum og tali máli hundaeigenda og mótmæli orðalagi svokallaðs hundaeftirlitsmanns sem og því hvernig gengið er fram gagnvart fólki sem vill eiga sinn sinn hund.

Af nógu er að taka í því ofbeldi og skilningsleysi sem fólk sem vill eiga gæludýr, mætir hér á landi. Ég nefni aðeins tvö alvarleg dæmi: Nú ætlar Brynja – hússjóður Öryrkjabandalags Íslands að ganga hart fram í því að láta íbúa sem leigja hjá þeim húsnæði, „losa sig við dýrin sín“ fyrir 15. maí nk.

Félagsbústaðir Reykjavíkur sem reknir eru sem sjálfstæð opinber stofnun – OHF – banna algerlega hunda og önnur gæludýr í sínum húsum.

Það er knýjandi að HRFÍ komi fram í fjölmiðlum í hvert einasta sinn sem hundaeigendur eru beittir ofbeldi og/eða sýnt fullkomið skilningsleysi á því að þeir vilja eiga hund – eða annað gæludýr.

Hundaeigendur og hundar þeirra verða að eiga sér málsvara!                 

Með bestu kveðju

Jórunn Sörensen