Heimilishundurinn verður hjálparhundur

Þórhildur Bjartmarz

Norski hundaþjálfarinn Line Sandstedt sem var hér á landi um daginn sagði okkur frá mjög spennandi verkefni. Line sem rekur hundaskóla í úthverfi Osló er sífellt að leita nýrra tækifæra þar sem hundar eru þjálfaðir og nýttir til ýmissa starfa.

Verkefnið „heimilishundurinn gerður að hjálparhundi“ hefur staðið yfir í rúm 2 ár. Fjármagninu sem úthlutað var til verkefnisins er búið en Line vonar að skólinn fái áframhaldandi fjárstuðning svo hægt sé að halda því áfram, þörfin er mikil.

Verkefnið gengur þannig fyrir sig í stuttu máli að fatlaðir einstaklingar sem eiga venjulega heimilishunda fá til sín hundaþjálfara sem aðstoða við að kenna hundunum að hjálpa til við ýmis störf. T.d. taka upp og rétta hluti sem detta í gólfið, ná í símann þegar hann hringir, kveikja og slökkva ljós, hjálpa til við að setja í og taka úr þvottavél. Sumum hundum er kennt að gelta til að sækja hjálp og á einu heimilinu var hundur þjálfaður til að sækja eldivið í kjallara hússins. Eigendurnir velja sjálfir hvað þeir vilja kenna hundunum með tilliti til hvernig þeir nýtast best .

Mikil ánægja er meðal þeirra sem notið hafa þjónustunnar. Það að hafa hjálparhund sér við hlið allan sólahringinn hefur auðveldað þeim lífið og fært þeim meira sjálfstæði og öryggi. Hundarnir eru líka glaðari, þeir hafa fengið ný hlutverk í spennandi verkefnum.