Félag hundaeigenda á Akureyri

María Björk Guðmundsdóttir

Félag hundaeigenda á Akureyri

Á Akureyri búa margir hundaeigendur. Hópur þeirra, sem hittist reglulega á hundasvæðinu Blómsturvöllum, ákvað að stofna hagsmunafélag og þann 2. apríl 2011 var Félag hundaeigenda á Akureyri formlega stofnað, stofnfélagar voru 23.

Tilgangur félagsins er einfaldur:

  • að vinna að bættum hag hunda og hundaeigenda á Akureyri
  • að efla félagsmenn til hreyfingar og afþreyingar með hundunum sínum
  • að miðla fræðslu til félagsmanna og samfélagsins

Það gerir félagið með því að:

  • halda reglubundna viðburði þar sem hundar og menn koma saman og uppfylla félagslega þörf hunda með hreyfingu og afþreyingu
  • halda úti fræðslu- og tengslavef fyrir félagsmenn og annað áhugafólk um hunda, hundahald og tengd málefni
  • fylgjast með því að yfirvöld virði rétt hunda og hundaeigenda og knýja á um úrbætur í þeim efnum

Þó að félagið sé ungt, rétt rúmlega 4 ára, er gaman að segja frá því að það hefur þó náð að standa undir stóru markmiðunum og er hvergi hætt. Í nóvember 2013 fengum við afhent innanbæjarhundasvæði að Borgum til viðbótar við það svæði sem við höfðum fyrir á Blómsturvöllum. Þetta var stórt skref í hundamenningu bæjarins og eru bæði svæðin mikið notuð af heimafólki og gestum.

Félagið hefur staðið fyrir hreinsunardögum á hundasvæðunum og einnig hreinsunargöngum á helstu göngustígum bæjarins, haldið jólahundabingó þar sem allur ágóði hefur runnið til Dýrahjálpar Íslands, verið með kakóhittinga, bæði með og án hunda, og staðið fyrir fyrirlestrum, nú síðast í samstarfi við Norðurhunda, svæðafélag HRFÍ.

Í hverri viku stendur félagið fyrir innanbæjartaumgöngu víðs vegar um bæinn, hundahittingi á hundasvæðinu á Blómsturvöllum, smáhundahittingi á hundasvæðinu á Borgum og nýlega bættust við hlýðnihittingar á Byko-planinu.

Við höfum leitast við að eiga gott samstarf við Akureyrarbæ og eigum reglulega fundi með framkvæmdadeild bæjarins vegna ýmissa mála er snúa að hundahaldi.

Heimasíða félagsins http://fhakureyri.weebly.com/ er í stöðugri vinnslu. Einnig erum við með hóp á Facebook https://www.facebook.com/groups/180285565348074/ þar sem allir eru velkomnir, félagsmenn sem og aðrir sem hafa áhuga á að fylgjast með viðburðum félagsins.

En af hverju að vera í svona félagi? Jú, það er gaman að eiga hund, það er ennþá meira gaman að eiga hund og eiga aðgang að góðum hundasvæðum og geta hitt aðra hundaeigendur og spjallað við þá um það sem okkur öllum finnst gaman að tala um, hundana okkar. Svo er ennþá meira gaman að búa í samfélagi þar sem hundamenning er góð. Svona félag er því gott fyrir bæði einstaklingana og bæjarfélagið.

Til að við getum náð markmiðum okkar og á okkur sé hlustað þurfum við að vera sýnileg, áberandi og fjölmenn. Félagsgjaldið í Félagi hundaeigenda á Akureyri er 2.500 kr. á ári. Félagsmenn fá afhent félagsskírteini sem gildir sem afsláttarkort hjá ýmsum samstarfsaðilum okkar. Hægt er að gerast félagsmaður með ýmsu móti, skrá sig á heimasíðunni okkar, senda okkur skilaboð á Facebook eða senda okkur tölvupóst á netfangið fhakureyri@gmail.com

Vertu með! 🙂

Höfundur hefur verið formaður Félags hundaeigenda á Akureyri síðan 15. apríl 2012.