Fólk er farið að manngera hundana

Þórhildur Bjartmarz

Í Mbl laugardaginn 25. apríl er viðtal við Óskar Björgvinsson, hundaeftirlitsmann um kærur og kvartanir til hundaeftirlitsins og þar segir m.a;

 að hundaeigendur hafi oft þá einu úrlausn að flytja þegar aðrir í fjölbýli setji sig gegn því að hundahald sé leyft í húsinu. „Ég er með eitt mál þar sem íbúð var keypt með þeim fyrirvara að hundahald væri leyft. En þegar upp var staðið kom í ljós að svo var ekki. Farið var í það að ná hundinum úr húsi. En tilfinningar eru oft svo miklar í þessum málum. Fólk er farið að manngera hundana og flytur frekar en að losa sig við hundinn,“ segir Óskar

Þarna er svo undarlega tekið til orða; „farið var í það að ná hundinum úr húsi“ og fólk er farið að manngera hundana og flytur frekar en að losa sig við hundinn. En ekki hvað? Þegar fólk kaupir sér íbúð þar sem það telur að hundahald sé leyft ætlar það væntanlega að hafa hundinn hjá sér. Ekki ætlar hundaeftirlitsmaðurinn hundaeigendum að þeir afhendi þá við útidyrnar eins og þegar er verið að gefa íþróttafélögum dósir í poka.

Það er eitthvað svo mikið yfirlæti í setningunni „ fólk er farið að manngera hundana og flytur frekar en að losa sig við hundinn“. Í augum hundaeftirlitsmannsins er það að manngera hundana þegar fólk kýs frekar að flytja og halda hundinum heldur að búa í sambýli með þeim sem setja þeim slíka úrslitakosti. Við hundaeigendur skiljum þessi mál mjög vel, við kjósum nefnilega að búa með hundum.