Theodóra Arndís Berndsen
Mig langar aðeins til að deila með ykkur tveimur lífreynslusögum með góðum endi. Ástæðan eru allar pælingar hundaeigenda um ofnæmi fyrir hundum og ótta við hunda hjá mörgum þeim sem ekki eiga hunda.
Ofnæmið
Ég bjó eitt sinn í fjölbýli með minn hund og á hæðinni fyrir neðan bjó fjölskylda þar sem dóttir hjónanna var með ofnæmi fyrir hundum. Þegar ég sótti um leyfi íbúa fyrir hundinum þá komumst við að samkomulagi um að ég notaði lyftuna þegar ég færi með hundinn inn og út en litla telpan notaði stigann. Einnig sömdum við um að ef dóttir hjónanna færi að finna fyrir einkennum að þá myndum við ræða málið og reyna að leysa það á þann hátt að það kæmi sem best út fyrir okkur öll. Þetta ár sem ég bjó í þessu fjölbýli komu aldrei upp nein vandamál í sambandi við ofnæmi dóttur hjónanna svo ég viti til.
Óttinn
Eitt sinn bjó ég í fjölbýli þar sem ungur drengur sem bjó við hliðina á mér var alveg hræðilega hræddur við hunda. Hann var svo hræddur að hann stífnaði upp þegar hann sá hunda. Foreldrar hans vissu ekki til þess að neitt hefði komið upp sem orsakaði þessa hræðslu.
Einn daginn þegar ég var úti á plani með minn hund stendur drengurinn álengdar og horfir til mín til að gá hvort ég væri að koma eða fara. Ég kallaði til hans og spurði hvort ekki væri allt í lagi og sagði honum að það væri í lagi að vera hræddur við ókunnuga hunda en ef hann vildi þá mætti hann koma til okkar og klappa hundinum en hann þyrfti þess ekki ef hann ekki vildi. Ég stóð lengi úti og talaði við drenginn og hann fikraði sér nær og nær og eftir rúman klukkutíma var drengurinn farinn að klappa hundinum eins og ekkert væri. Eftir þetta beið drengurinn oft á planinu eftir að ég kæmi heim úr vinnu og tók jafnvel vini sína með sér til að klappa hundinum. Þá sagði hann gjarnan sjálfur: “Sko það eru ekki allir hundar vondir og þessi hundur er góður og við þurfum ekki að vera hrædd við hann.”
Niðurstaða þessara hugleiðinga minna er að samvinna og að leita lausna skilar okkur öllum góðum árangri.