Undirbúum hundana fyrir hjólaferðir

Þórhildur Bjartmarz

Margir er farnir að draga fram hjólin og algengt er að sjá bæði krakka og fullorðna hjólandi með hunda og jafnvel hvolpa.

Hvolpar hafa alls ekkert með það að gera að hlaupa með hjóli þó svo að farið sé rólega. Hins vegar er sjálfsagt að venja þá við hjól með því að ganga við hlið einhvers sem hjólar þannig að hvolpurinn venjist hjólinu og hljóðunum sem því fylgja. Síðar má svo byrja að ganga með hvolpinn og reiða hjólið.

Hvenær má þá byrja að hjóla með hunda? Það fer eftir tegund, þroska og fyrri þjálfun. Það er engin ástæða til að byrja of snemma. Hægt er að byrja að þjálfa unghundinn með því að fara 5 til 10 mínútur á dag í nokkra daga og svo auka við nokkrar mínútur í hverri ferð. Það er nauðsynlegt að líta á klukkuna og fylgjast með tímanum því það er auðvelt að gleyma sér þegar vel gengur.

Áríðandi er að nota beisli sem passar vel á hundinn. Leitið til fagaðila í gæludýraverslun þar sem hundurinn má fara inn í verslunina og fáið hjálp við að finna hjólabeisli í passlegri stærð fyrir hundinn og látið stilla það rétt.  Sjálf hef ég góða reynslu á sérstökum hjólastöngum sem fest er við hjólið.

Þegar við förum svo í hjólaferðina þá þarf að muna eftir skítapokum, vatnsflösku, vatnsdall og blikkól á beislið. Það er góð regla að stoppa eftir ca 10 mín, taka hundinn í taum, ganga um og ath hvort hann þarf að losa sig. Með því að stoppa reglulega í hjólaferðum fylgjumst við betur með ástandi hundsins.  Það  er áríðandi að hjóla á þeim hraða sem hundurinn ræður vel við þ.e.a.s að hann brokki við hlið okkar.

thorhildurbjartmarz@gmail.com