Þórhildur Bjartmarz
Hér á Hundalífsblogginu er að finna aldeilis frábæra færslu Gísla Marteins Baldursonar sem hann setti á Facebook síðu sína í janúar sl. Í lok pistils Gísla Marteins segir hann; „Og svokallaðir hægri menn eru jafnvel enn stjórnlyndari en sósíalistarnir“ Aðeins meira um stjórnlynda hægri menn: Í jan 1984 kærði Rafn Jónsson fréttamaður Albert Guðmundsson, þáverandi fjármálaráðherra landsins fyrir ólöglegt hundahald. Rafn sagði: Það er spurning hvort þessi kæra verði ekki til þess að reglunum verði breytt enda brýn þörf. Tíminn birti viðtal við ráðherrann: „Ég bý ekki í lögregluríki Íslands“ segir Albert Guðmundsson, fjármálaráðherra, sem treystir því að sjálfstæðismeirihlutinn í borgarstjórn gæti hagsmuna hans, en íhugar ellegar búferlaflutninga af landi brott. Framhaldið í stuttu máli; Albert fór hvergi, ekki einu sinni í fangelsi, borgaði sektina fyrir Lucy sem varð skyndilega frægasti hundur landsins. Albert sagðist greiða sektina til að fá vinnufrið fyrir erlendum blaðamönnum og hringingum frá fólki utan úr heimi sem ýmist vildi bjóða honum landvist eða greiða sekt hans. Nokkrum mánuðum síðar var undanþága til hundahalds veitt til 4 ára – til reynslu. Ætli umræðan í hinum reykfylltu bakherbergjum hafi verið að fjögur ár væru nóg því Lucy væri komin til ára sinna? Rafn Jónsson var sannarlega klókur í þessu máli og lagði sitt af mörkum til að 60 ára banni við hundahaldi var aflétt.