Þriðja sporapróf ársins var haldið á Hólmsheiðinni föstudaginn 31. ágúst. Því miður hefur þátttaka í sporaprófunum ekki verið mikil undanfarin ár og lítil nýliðun í sportinu. Nú voru aðeins fjórir hundar skráðir í prófið allir í framhaldsflokki, þrír hundar í spori 2 og einn í spori 3.
Prófið var sett kl. 15 við ágætis aðstæður sunnan 9 m/sek, 10 stiga hita og smá rigningu. Dómari og prófstjóri voru með allar fjórar sporaslóðirnar tilbúnar og því hægt að senda hundana strax út í vinnu.
Fyrst í braut var Abbadís sem tók próf í spori 3. Hún var snögg að leysa fyrsta hluta prófsins sem er að finna sporaslóð í ca 30 x 30 metra ramma. Eftir það tók við 1200 metra slóð 80 til 100 mín gömul með sjö millihlutum, einni 30° beygju, sex 90°beygjum og endahlut. Hundurinn verður að leysa verkefnið innan ákveðins tíma. Abbadís lauk sporavinnunni á góðum tíma en skilaði sex millihlutum sem gaf 8 refsistig en fékk í öðru fulla einkunn. Lokaeinkunnin var því 92 stig af 100 mögulegum.
- sæti með I. einkunn Abbadís með 92 stig.
Þrír hundar voru skráðir í spor 2. Tveir náðu prófi, annar með 100 stig en hinn með 72 stig sem er þriðja einkunn. Í spori 2 er lögð 1000 metra slóð með fimm 90° beygjum, fimm millihlutum og endahlut. Slóðin eru u.þ.b. 60-80 mín gömul þegar hundur byrjar við upphafspunkt. Hundurinn á að finna sporaslóðina en stjórnandinn fær að vita hvar hún liggur. Æfingin byrjar í ca 15 metra fjarlægð frá slóðinni. Fjalladís fann upphafspunkt og alla hluti og fékk 100 stig af 100 mögulegum. Svarthöfða Jon Bon Jovi lenti hins vegar í vandræðum með upphafsslóðina og var vísað á fastan punkt og missti þar 20 stig. Auk þess vantaði einn millihlut í lokin sem gaf 8 refsistig eða samtals 28 stig frá 100 stigum. Lokaeinkunn var því 72 stig. Þriðji hundurinn sýndi lítinn áhuga fyrir sporavinnunni þennan dag og stjórnandi hætti við prófið og reynir síðar. Í spori 2 þarf hundurinn að ljúka sporavinnunni innan ákveðins tíma.
- sæti með I. einkunn Ibanez white shephard Fjalladís með 100 stig
- sæti með III. einkunn Svarthöfða Jon Bon Jovi með 72 stig
Dómari: Albert I Steingrímsson
Prófstjóri: Kristjana Guðrún Bergsteinsdóttir
F.h. Vinnuhundadeildar vil ég þakka þeim Alberti og Kristjönu fyrir þeirra framlag, gott skipulag og viðmót.
Dýrheimar/Royal Canin gaf verðlaun